Fréttir


Fjármálaeftirlitið birtir ársreikninga og upplýsingar um afkomu vátryggingagreina hjá íslenskum vátryggingafélögum

3.6.2013

Fjármálaeftirlitið hefur birt ársreikninga og upplýsingar um afkomu vátryggingagreina hjá íslenskum vátryggingafélögum fyrir reikningsárið 2012 með samræmdri uppsetningu. Birtir eru rekstrar- og efnahagsreikningar, ásamt sjóðsstreymi. Í þeim tilvikum sem vátryggingafélag er hluti af samstæðu eru birtir móðurfélagsreikningar.

Ársreikningar vátryggingafélaga eru almenningi aðgengilegir samkvæmt 3. mgr. 56. gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 56/2010 en þar segir: „Ársreikningur ásamt skýrslu stjórnar skal liggja frammi til afhendingar á afgreiðslustað vátryggingafélags eftir samþykkt hans á aðalfundi‟.

Ársreikningar eru gerðir á ábyrgð vátryggingafélags. Samræming í uppsetningu ársreikninga í þessari útgáfu felst í heitum, röð og formerkjum liða. Birtingin felur ekki endilega í sér að Fjármálaeftirlitið samþykki reikningsskilahætti og matsaðferðir í öllum tilvikum. Vera kann að einhverjir þættir einstakra reikninga gefi tilefni til fyrirspurna og jafnvel athugasemda af hálfu Fjármálaeftirlitsins, án þess að það leiði til þess að gera þurfi breytingar á þegar útgefnum reikningum.

Í ársbyrjun 2013 báru 13 íslensk vátryggingafélög virka vátryggingaráhættu. Þau eru:
European Risk Insurance Company hf.
Íslensk endurtrygging hf.
Líftryggingafélag Íslands hf.
Líftryggingamiðstöðin hf.
Okkar líftryggingar hf.
Sjóvá-Almennar líftryggingar hf.
Sjóvá-Almennar tryggingar hf.
Trygging hf.
Tryggingamiðstöðin hf.
Viðlagatrygging Íslands
Vátryggingafélag Íslands hf.
Vörður líftryggingar hf.
Vörður tryggingar hf.

Íslensk endurtrygging hf. og Trygging hf. vinna eingöngu að uppgjöri eldri skuldbindinga vegna endurtrygginga. Félögin eru dótturfélög í 100% eigu Tryggingamiðstöðvarinnar hf.

Allar tölur hafa verið samræmdar þannig að þær eru  í þúsundum íslenskra króna. Rétt er að geta þess að European Insurance Risk Company hf. (ERIC) gerir upp í breskum pundum og hafa fjárhæðir ársreikningsins og vátryggingagreina verið umreiknaðar í íslenskar krónur. Við umreikninginn varð sú breyting að rekstur félagsins í íslenskum krónum skilar tapi, þrátt fyrir að reksturinn í pundum skili hagnaði. Ástæða þess er að vegna gengisbreytinga hækkaði virði vátryggingaskuldar félagsins í íslenskum krónum um 71 milljón frá árslokum 2011 til ársloka 2012, sem gera þarf grein fyrir í íslenska rekstrarreikningnum.

Að öðru leyti vísast til umfjöllunar um vátryggingamarkaðinn í nýútkominni ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins.
Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica