Fréttir


Staða prófmála vegna gengislána

17.5.2013

Fjármálaeftirlitinu hefur borist nokkur fjöldi fyrirspurna og ábendinga vegna úrvinnslu mála sem tengjast svonefndum gengislánum og hefur stofnunin unnið úr þeim í samræmi við verklagsreglur sínar vegna slíkra erinda. Í ljósi þessa telur Fjármálaeftirlitið rétt að greina stuttlega frá stöðu þessara mála.

Í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands frá 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011skapaðist réttaróvissa vegna endurreiknings og uppgjörs á gengislánum sem farið hafði fram á grundvelli laga nr. 151/2010. Hinn 9. mars 2012 heimilaði Samkeppniseftirlitið fjármálafyrirtækjum samstarf sem miðaði að því að hraða úrvinnslu skuldamála vegna þessara lána. Í kjölfarið var komið á fót samstarfshópi sem í voru fulltrúar frá fjármálafyrirtækjum, embætti umboðsmanns skuldara, Neytendastofu og embætti talsmanns neytenda. Fjármálaeftirlitið átti áheyrnarfulltrúa í samstarfshópnum sem fylgdist náið með framgangi vinnunnar.

Hinn 8. maí 2012 skilaði samstarfið af sér samantekt, sem unnin var af fjórum lögmönnum, þar sem tilgreind voru 22 ágreiningsefni sem á gæti reynt fyrir dómstólum. Samstaða náðist síðan um val á 11 prófmálum þar sem átti að láta reyna á ágreiningsefnin.

Með dómi Hæstaréttar frá 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 var talsverðri réttaróvissu eytt og ekki lengur talin þörf á að láta reyna á öll ágreiningsefnin og höfða dómsmálin ellefu. Engu að síður var ljóst að sum hver ágreiningsefnanna yrðu ekki leyst öðruvísi en fyrir dómstólum. Á meðal þeirra eru:

1.    Hvort og þá hvaða þýðingu það kann að hafa hafi skuldari ekki staðið í fullum skilum samkvæmt  lánsskilmálum á lánstímanum, til dæmis með því að nýta sér greiðslujöfnun, greiðsluskjól, breytingu á greiðsluskilmálum eða að greiða hluta af afborgun eða vöxtum (ágreiningsefni samkvæmt stafliðum d, f og g í framangreindri samantekt).

2.    Hvort og þá hvaða þýðingu lengd lánstíma og fjárhæð viðbótargreiðslu kann að hafa, þ. á m. að teknu tilliti til upphaflegrar lánsfjárhæðar, fyrir beitingu þeirrar undantekningar frá meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum við skuldara eigi tilkall til viðbótargreiðslu fyrir liðna tíð. Þetta ágreiningsefni hefur mikla þýðingu við endurreikning styttri lána á borð við bílalán (ágreiningsefni samkvæmt stafliðum l og m í samantektinni).

3.    Hvort og þá hvaða þýðingu það kann að hafa að upphaflegir samningsvextir sem skuldari innti af hendi á gjalddaga hafi verið hærri en óverðtryggðir vextir Seðlabanka Íslands á sama tímabili (ágreiningsefni samkvæmt staflið p í samantektinni).

Þrjú prófmál eru nú rekin fyrir dómstólum með það að markmiði að leysa úr útistandandi ágreiningsefnum en síðasttalda málið er rekið í tveimur aðskildum málum. Prófmálin eru:

1.    Mál nr. E-2302/2012 sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og varðar bílalán. Málið getur meðal annars haft þýðingu við að leysa úr ágreiningsefnum samkvæmt stafliðum c, d, f, g, l og m í framangreindri samantekt. Aðalmeðferð fór fram hinn 22. apríl sl. (Innsk. 3. júní 2013. Málið var endurupptekið 31. maí sl. og er fyrirtaka málsins á dagskrá dómstólsins 21. júní nk.)

2.    Mál nr. X-4/2013 sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjaness og varðar fyrirtækjalán. Málið getur meðal annars haft þýðingu við að leysa úr ágreiningsefnum samkvæmt stafliðum f, g, h, l, m og o í samantektinni. Munnlegur málflutningur er á dagskrá dómstólsins hinn 28. maí nk.

3.    Mál nr. E-3607/2012 og E-3608/2012 sem rekin eru fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og varða húsnæðislán. Málin geta meðal annars haft þýðingu við að leysa úr ágreiningsefnum samkvæmt stafliðum c og d í samantektinni. Kveðnir voru upp úrskurðir í málunum hinn 18. apríl sl. þar sem því var hafnað að leita ætti ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málunum. Úrskurðirnir hafa verið kærðir til Hæstaréttar. (Innsk. 3. júní 2013. Með dómum Hæstaréttar 31. maí sl. í málum nr. 327/2013 og 328/2013 voru úrskurðir héraðsdóms staðfestir.)

Auk framangreindra prófmála er rétt að geta þess að hinn 23. nóvember 2012 féll dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2657/2011, sem er ekki hluti af prófmálunum, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að undantekningarreglan um gildi fullnaðarkvittana ætti ekki við í málinu og því ætti kröfuhafi rétt á viðbótargreiðslu frá skuldara fyrir liðna tíð. Héraðsdómnum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Málflutningur er á dagskrá réttarins hinn 24. maí nk. og má vænta dóms fyrir réttarhlé. Dómur Hæstaréttar í málinu kann að skera úr útistandandi ágreiningsefnum tengdum styttri lánum, eins og bílalánum, auk ágreiningsefnis samkvæmt staflið p í framangreindri samantekt.

Fjármálaeftirlitið bindur vonir við að prófmálin og önnur mál sem rekin eru fyrir dómstólum muni endanlega eyða réttaróvissu tengdri ágreiningsefnum vegna gengislána.

Til baka

Language


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica