Fréttir


Reglur um endurskoðunardeildir og sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila lífeyrissjóða nr. 577/2012

6.7.2012

Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, skal Fjármálaeftirlitið setja reglur um endurskoðunardeildir og sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila lífeyrissjóða. Á fundi stjórnar Fjármálaeftirlitsins þann 12. júní sl. voru samnefndar reglur samþykktar og hafa þær nú verið birtar í vefútgáfu stjórnartíðinda sem reglur nr. 577/2012.

 

Með hliðsjón af þeim breytingum sem leiðbeinandi tilmæli nr. 4/2011, um áhættustýringu (eftirlitskerfi) samtryggingardeilda lífeyrissjóða, hafa í för með sér var talin þörf á að uppfæra reglur Fjármálaeftirlitsins um endurskoðunardeildir og eftirlitsaðila, nr. 687/2001. Við uppfærslu reglnanna var tekið mið af athugasemdum sem bárust eftir umsagnarferli með fagaðilum og hagsmunaaðilum. Enn fremur voru reglurnar samræmdar leiðbeinandi tilmælum nr. 3/2008, um störf endurskoðunardeildar fjármálafyrirtækja, eftir því sem frekast var unnt.

Helstu breytingar sem reglurnar fela í sér eru eftirfarandi.

Skilgreiningum hefur verið bætt inn í reglurnar, þ.e. skilgreiningum á hugtökunum innri endurskoðun, innra eftirlit, stjórnarhættir og áhættustýring, sbr. 1. gr. reglna nr. 577/2012. Var það m.a. gert til að undirstrika skýran greinarmun á innri endurskoðun annars vegar og innra eftirliti hins vegar. Jafnframt var greinum um stjórnendaeftirlit og eftirlitsumhverfi bætt við, sbr. 7. gr. og 8. gr. hinna nýju reglna. Helst þessi breyting í hendur við nefndar skilgreiningar, auk þess sem greinarnar fela í sér nauðsynlegar breytingar vegna áhættustýringar lífeyrissjóða. Til að samræma reglur nr. 577/2012 við ofangreind leiðbeinandi tilmæli nr. 3/2008 var 5. gr. reglnanna breytt og kveðið nánar á um heimildir innri endurskoðunar. Er sú grein samhljóða sambærilegu ákvæði í leiðbeinandi tilmælum nr. 3/2008.

Ennfremur var bætt við þær eftirlitsaðgerðir sem huga þarf að við innri endurskoðun hjá lífeyrissjóðum, sbr. 9. gr. reglnanna. Við bættust tveir nýir liðir, nr. 9 og 10. Níundi liður felur í sér að endurskoðunardeildir eða sjálfstætt starfandi eftirlitsaðilar geri kannanir á skipulagi og virkni áhættustýringar lífeyrissjóða. Tíundi liður felur í sér að endurskoðunardeildir eða sjálfstætt starfandi eftirlitsaðilar geri kannanir á eftirfylgni vegna fyrri athugasemda innri endurskoðenda. Er þessi viðbót í samræmi við fyrrnefnd leiðbeinandi tilmæli nr. 3/2008.

Á meðal þeirra athugasemda sem bárust og ekki var tekið tillit til var að óskað var eftir að tilgreint væri í reglunum að þeir sem hefðu CIA (e. certified internal auditor) gráðu væru hæfir til að sinna innri endurskoðun hjá lífeyrissjóðum. Umrædd athugasemd var ekki tekin til greinar þar sem fram kemur í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að hæfi til að sinna slíkum störfum séu takmörkuð við löggilta endurskoðendur eða þá sem hlotið hafa viðurkenningu FME.

Jafnframt var óskað eftir því að fleiri skilgreiningar bættust við 1. gr. reglnanna, en þær athugasemdir voru ekki teknar til greinar þar sem ákveðið var að takmarka fjölda skilgreininga svo sú grein yrði ekki of umfangsmikil. Einnig gerðar athugasemdir við orðalag einstakra eftirlitsaðgerða, sbr. 9. gr. reglnanna, og var tekið tillit til flestra athugasemda. Í sumum tilvikum var þó talið að aðgerðir sem óskað var eftir að bætt yrði við 9. gr. fælust í þeim liðum sem koma fram í umræddri grein. Reglurnar takmarka ennfremur ekki eftirlitsaðgerðir innri endurskoðenda og því er þeim heimilt að framkvæma aðrar kannanir en þær sem tilgreindar eru sérstaklega í reglunum.

Eftir endurskoðun reglna um endurskoðunardeildir og sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila lífeyrissjóða, sem nú hafa verið birtar í stjórnartíðindum sem reglur nr. 577/2012, er með skýrum hætti vikið að áhættustýringu lífeyrissjóða og verkefnum því tengt. Reglurnar eru nú jafnframt efnislega sambærileg við leiðbeinandi tilmæli fyrir fjármálafyrirtæki.

Fjármálaeftirlitið þakkar veittar umsagnir.

Reglurnar má nálgast hér

 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica