Fréttir


Vegna dóms Hæstaréttar Íslands frá 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011

1.3.2012

Með vísan til þeirrar réttaróvissu sem upp er komin varðandi endurreikning á gengistryggðum láns- og eignarleigusamningum, sbr. dóm Hæstaréttar frá 15. febrúar sl. í máli nr. 600/2011, hefur Fjármálaeftirlitið beint neðangreindu til lánastofnana, lánastofnana sem stýrt er af slitastjórn og dótturfélaga lánastofnana í slitameðferð (eftirleiðis lánastofnanir).

Lánastofnunum ber að leggja mat á það hver möguleg áhrif dómsins, og þess endurreiknings sem af honum hlýst, verða á eigið fé þeirra, sbr. bréf Fjármálaeftirlitsins dags. 27. febrúar sl. Ef líkur eru á að nýr endurreikningur í samræmi við dóminn leiði í ljós að tilteknir skuldarar teljast mögulega hafa ofgreitt og ekki er unnt að skuldajafna þeim ofgreiðslum í samræmi við 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ber lánastofnunum að:

  1. Meta hvort rétt sé að senda frekari greiðsluseðla til slíkra skuldara, og
  2. tryggja skuldurum sem reynast hafa ofgreitt miðað við nýjan endurreikning fullar endurgreiðslur.

Þá hefur Fjármálaeftirlitið minnt lánastofnanir á þann valkost að þær geti boðið skuldurum, sem teljast mögulega hafa ofgreitt, upp á það úrræði að greiða inn á kröfu samkvæmt greiðsluseðli með greiðslu inn á sérstakan geymslureikning þar til nýjum endurreikningi og uppgjöri er lokið.

Jafnframt hefur Fjármálaeftirlitið beint því til lánastofnana að grípa ekki til íþyngjandi vanefndarúrræða gagnvart skuldurum, s.s. á grundvelli laga nr. 90/1989 um aðför, laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu  og vörslusviptinga á grundvelli samningsskilmála, í þeim tilvikum þar sem óvissa kann að vera til staðar um ætluð vanskil.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica