Fréttir


Tímabundin starfsemi lánastofnana

17.11.2011

Viðskiptabanka, sparisjóði og lánafyrirtæki er heimilt samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki að stunda tímabundið aðra starfsemi í óskyldum rekstri í þeim tilgangi að ljúka viðskiptum eða til að endurskipuleggja starfsemi viðskiptaaðila.

Er fjármálafyrirtæki tekur yfir eignarhluti í fyrirtæki eða telst vera að stunda tímabundna starfsemi að öðru leyti, t.d. með atkvæðarétti eða stjórnarsetu, skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Tilkynningarform ásamt viðeigandi upplýsingum má finna á heimasíðu eftirlitsins.

Þann 25. júní 2010 kom inn í lög ákvæði er takmarkaði heimildir fyrrgreindra fjármálafyrirtækja til að stunda tímabundna starfsemi við 12 mánuði, sbr. lög nr. 75/2010 um breytingar á lögum nr. 161/2002. Vari þátttaka lengur en í 12 mánuði getur Fjármálaeftirlitið framlengt tímafrestinn samkvæmt rökstuddri umsókn. Umsóknareyðublað um aukinn frest til að stunda tímabundna starfsemi má finna á heimasíðu eftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið skoðar hverja umsókn ítarlega og metur hvort rök séu til þess að veita viðbótarfresti.

  • Frestir sem veittir hafa verið eru mislangir og taka mið af ýmsum þáttum eins og stöðu félags á markaði og umfangi eignarhalds fjármálafyrirtækisins.
  • Skilyrði þess að frestur sé lengdur er að ársreikningur viðkomandi félags sé birtur.
  • Ef engin starfsemi er í félaginu eða það er í slitaferli hefur Fjármálaeftirlitið veitt frest til að ljúka slitum og afskrá félagið.
  • Sé fyrirtæki í endurskipulagningarferli eða þarfnast endurskipulagningar hefur Fjármálaeftirlitið veitt hæfilegan frest til að ljúka því ferli og leggja fram raunhæfa söluáætlun.
  • Sé endurskipulagningu fyrirtækis lokið hefur verið veittur frestur til að ljúka sölu.

Fjármálaeftirlitið hefur ekki beitt viðurlögum að svo stöddu en er heimilt að beita dagsektum og/eða stjórnvaldssektum til að knýja á um sölu.

Miðað við stöðuna þann 1. nóvember síðastliðinn eiga fjármálafyrirtæki 132 félög í tímabundinni starfsemi en rétt er að taka fram að mörg þeirra eru aðeins að litlum hluta í eigu fjármálafyrirtækja. Þau félög sem fjármálafyrirtæki eiga minna en 10% í eru ekki tekin með í samantektinni hér fyrir neðan. Þar að auki eru mörg félög, sem eru að fullu í eigu fjármálafyrirtækja, aðeins eignarhald utanum minni eignarhluti í öðrum félögum, bæði innlendum sem erlendum. Af umræddum fjölda félaga eru 87 félög í yfir 40% eignarhaldi fjármálafyrirtækis, í 20 félögum er eignarhaldið á bilinu 20-40% og í 25 félögum er eignarhaldið 10-20%.

Af þeim 132 félögum sem fjármálafyrirtæki eiga í tímabundinni starfsemi hafa 74 umsóknir um aukinn frest verið afgreiddar. Samkvæmt því er eignarhald fjármálafyrirtækja í 58 félögum enn innan þeirra 12 mánaða tímamarka sem lögin gera ráð fyrir. Fjármálaeftirlitið hefur í fjórtán tilvikum ekki gefið aukinn frest til eignarhalds heldur einungis aukinn frest til að ljúka sölu og að auki hefur eftirlitið gert kröfu um slit á 33 félögum. 27 félög fengu aukinn frest til að endurskipuleggja starfsemi sína þar sem þau voru ekki í söluhæfu ástandi. Í flestum tilfellum hefur verið óskað eftir lengri fresti en eftirlitið hefur veitt. Eftirfarandi yfirlit um veitta fresti til fjármálafyrirtækja vegna tímabundinnar starfsemi miðast við 1. nóvember 2011.

Samantekt

Fjármálaeftirlitið mun stuðla að því að koma félögum í óskyldri starfsemi úr eignahaldi eða virkum yfirráðum fjármálafyrirtækja með því annars vegar að veita stutta fresti til að koma félögum, sem enn eru í endurskipulagningu, í söluhæft ástand og hins vegar að veita hæfilega fresti til að selja þau fyrirtæki sem eru í söluhæfu ástandi.  Geti fjármálafyrirtæki ekki staðið við gefna fresti og ekki liggja fyrir fullnægjandi rök, að mati eftirlitsins, fyrir veitingu viðbótarfrests mun eftirlitið beita viðeigandi viðurlögum, dagsektum og/eða stjórnvaldssektum, til að knýja á um aðgerðir.

Fjármálaeftirlitið veitir ekki upplýsingar um hve langir frestir hafa verið veittir fyrir hvert félag né hvaða félög hafa fengið samþykki eftirlitsins um aukinn frest. Slíkar upplýsingar eru til þess fallnar að skaða þann markað sem fyrirtækin starfa á. Fjármálaeftirlitið mun heldur ekki veita upplýsingar um hvaða félög hafa ekki fengið framlengdan frest vegna sömu ástæðu og nefnd er hér að framan. Í meðförum Alþings voru gerðar breytingar á frumvarpi því er varð að lögum nr. 75/2010. Meirihluti viðskiptanefndar Alþingis rökstuddi meðal annars breytingartillögu sína varðandi 22. gr. fftl. með eftirfarandi orðum: Með því að setja inn ákveðin takmörk á því hversu lengi fjármálafyrirtæki verði heimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem starfsleyfi nær til getur verið hætta á að verðmæti eignar rýrni. Tímamarkið eykur líkur á að fjárfestar bíði eftir síðasta söludegi eignar til að fá hana á sem lægstu verði. Meirihlutinn leggur til að Fjármálaeftirlitið birti ekki opinberlega lengd tímafrests sem veitur er umfram 12 mánuði til að koma í veg fyrir að fjárfestar bíði fram til loka hans í þeirri von að eignin fáist fyrir lítið.


Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica