Fréttir


Niðurstaða athugunar á notkun PC Crash skýrslna hjá vátryggingafélögum

20.1.2016

Fjármálaeftirlitið ákvað að hefja athugun á notkun vátryggingafélaga á svonefndum PC Crash skýrslum í skaðabótamálum. Var það gert á grundvelli 1. mgr. 9. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í þessu skyni óskaði Fjármálaeftirlitið eftir upplýsingum og viðeigandi gögnum frá vátryggingafélögum um notkun PC Crash skýrslna ásamt almennum sjónarmiðum vátryggingafélaganna og afstöðu til notkunar skýrslnanna.

Í svörum er bárust eftirlitinu kom meðal annars fram að vátryggingafélög telja PC Crash skýrslur vera stuðningstæki fyrir vátryggingafélög til að endurskapa umferðarslys og fá þannig skýrari mynd af aðstæðum og mögulegum afleiðingum þess. Skýrslunum er þannig ekki ætlað að segja til um áhrif áreksturs á líkama ökumanns eða farþega ökutækis heldur að reikna út höggkraft og hraðabreytingu sem kemur á ökutæki við árekstur.  Þær upplýsingar eru svo, ásamt öðrum gögnum og upplýsingum, notaðar til þess að meta möguleg orsakatengsl milli áreksturs og þess líkamstjóns sem um ræðir. Líkamstjónin sjálf eru hins vegar ávallt metin með læknisfræðilegum rannsóknum.

Þá kom einnig fram að notkun PC Crash skýrslna sé tiltekinn þáttur í frekara mati og að bótaskyldu sé einungis hafnað á grundvelli skýrslnanna þegar vátryggingafélag telur hafið yfir allan vafa að líkamstjón hafi ekki getað hlotist af viðkomandi árekstri. Í því sambandi má jafnframt geta þess að fyrir dómstólum lúta skýrslurnar sömu lögmálum og önnur sönnunargögn sem lögð eru fyrir dómstóla og er sönnunargildi þeirra háð meginreglunni um frjálst sönnunarmat dómara sem metur þær hverju sinni.

Um bótauppgjör vátryggingarsamninga gilda ákvæði XVIII. kafla laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Í 120. gr. laganna er kveðið á um að sá sem hyggst hafa uppi kröfu gegn vátryggingafélagi skuli veita því upplýsingar og afhenda gögn er hann hefur aðgang að og nauðsynleg eru svo vátryggingafélag geti metið ábyrgð sína og greitt út vátryggingarfjárhæðina. Þá er kveðið á um það í 121. gr. laganna að krafa um bætur eða vátryggingarfjárhæð falli í gjalddaga 14 dögum eftir að vátryggingafélagið átti þess kost að afla þeirra upplýsinga sem þörf var á til þess að kanna ábyrgð sína og reikna út endanlega fjárhæð bóta. Sé um að ræða kröfu um örorkubætur er heimilt í vátryggingarskilmálum að kveða nánar á um mat á örorkunni.

Upplýsingar um það hvernig staðið skuli að bótauppgjöri í líkamstjónamálum má m.a. finna í lögum um vátryggingarsamninga, skaðabótalögum og skilmálum vátryggingarsamninga. Notkun PC Crash skýrslna hefur verið liður í þeirri aðferðafræði sem beitt er í líkamstjónamálum hérlendis og erlendis um nokkurt skeið og hefur fjöldi dóma gengið þar sem skýrslurnar hafa verið lagðar fram öðrum gögnum til stuðnings. Mikilvægt er þó að hafa í huga að skoða verður hvert tilvik sjálfstætt hverju sinni.

Að teknu tilliti til þeirra gagna og upplýsinga sem Fjármálaeftirlitið aflaði við athugun þessa taldi eftirlitið ekki tilefni til að gera athugasemdir við að PC Crash skýrslur séu notaðar til stuðnings við skaðabótaréttarlegt sönnunarmat á orsakatengslum í líkamstjónamálum. Hins vegar áréttaði Fjármálaeftirlitið mikilvægi þess að læknisfræðilegt tjón sé metið eftir læknisfræðilegum gögnum og upplýsingum ásamt því sem áréttað var mikilvægi þess að vátryggingafélög hugi að upplýsingaskyldu sinni gagnvart aðilum um það hvernig staðið er að útreikningi í tengslum við PC Crash.

Fjármálaeftirlitið vekur athygli á því að ef til ágreinings við vátryggingafélag kemur um bótauppgjör geta aðilar vísað ágreiningi til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og/eða almennra dómstóla. Nánari upplýsingar um úrskurðarnefndina má finna hér: http://www.fme.is/eftirlitsstarfssemi/urskurdarnefndir/urskurdanefnd-i-vatryggingamalum/  

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica