Fréttir


Morgunverðarfundur Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfur og viðnámsþrótt banka

21.2.2019

Fjármálaeftirlitið efnir til morgunverðafundar um eiginfjárkröfur og viðnámsþrótt banka þann 5. mars næstkomandi. Fundurinn, sem fer fram á ensku, verður haldinn í Gullteigi á Grand Hótel Reykjavík. Morgunverður hefst kl. 8:00, fundurinn sjálfur stendur frá 8:30 til 10:00.

Síðastliðinn áratug hafa eiginfjárkröfur til banka verið hertar í kjölfar fjármálaáfallsins 2008. Nýr Basel III staðal, sem innleiddur hefur verið hér á landi með sama hætti og annars staðar í Evrópu, kveður á um aukið og „betra“ eigið fé auk strangari og framsýnni lausafjárkrafna. Koma þessar breytingar nægjanlega til móts við þekkta veikleika í alþjóðlegum bankarekstri? Hvernig eiga þessar reglur við í íslenskum veruleika?

Framsögumenn á fundinum verða: Martin Hellwig, prófessor og annar höfundur metsölubókarinnar The Bankers’ New Clothes: What's Wrong with Banking and What to Do About It, Perla Ösp Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Landsbankanum og Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins. Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins mun opna fundinn og stýra honum.

Tilefni fundarins er að Fjármálaeftirlitið hefur starfað í tuttugu ár og er fundurinn annar í röð funda um áhugaverð málefni tengd fjármálakerfinu sem Fjármálaeftirlitið hyggst halda af því tilefni. Fundurinn er öllum opinn. Óskað er eftir að fundargestir skrái þátttöku eigi síðar en 1. mars næstkomandi á fme@fme.is.

Til baka

Language


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica