Fréttir


Fjármálaeftirlitið gefur út drög að reglum um fyrirgreiðslur fjármálafyrirtækis til venslaðra aðila

5.7.2016

Fjármálaeftirlitið hefur gefið út umræðuskjal, nr. 9/2016, sem inniheldur drög að reglum um fyrirgreiðslur fjármálafyrirtækis til venslaðra aðila. Drögin fela í sér endurskoðun á reglum nr. 162/2011 um fyrirgreiðslur fjármálafyrirtækis til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, lykilstarfsmanna eða þeirra sem eiga virkan eignarhlut í því, eða aðila í nánum tengslum við framangreinda. Skjalið er birt á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins, http://www.fme.is/log-og-tilmaeli/umraeduskjol.

Regludrögin byggja á gildandi reglum um fyrirgreiðslur fjármálafyrirtækis til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra, lykilstarfsmanna og virkra eigenda, nr. 162/2011, auk þess sem tekið er tillit til breytinga sem urðu á 2. og 3. mgr. 29. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með samþykkt laga nr. 57/2015 um breytingu á umræddum lögum. Drögin byggja einnig á breytingum sem verða gerðar á lögum um fjármálafyrirtæki með samþykkt stjórnarfrumvarps sem nú liggur fyrir á Alþingi, sbr. 589. mál, þskj. 963: http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=145&mnr=589.

Á meðal breytinga má nefna að fjárhæðarmörk reglnanna hafa verið uppfærð til samræmis við lög um fjármálafyrirtæki, auk þess sem skilgreiningum er breytt til samræmis við fyrrnefnt stjórnarfrumvarp, sbr. 589. mál, þskj. 963. Breytingar hafa einnig verið gerðar á því hvað telst til traustra trygginga samkvæmt reglunum. Þá er fjallað um armslengdarsjónarmið vegna viðskipta fjármálafyrirtækis við venslaða aðila. Að lokum má nefna að umgjörð vegna áhættustýringar, innri endurskoðunar og skýrslugjafar er breytt.

Fjármálaeftirlitið tekur sérstaklega fram að samþykkt reglnanna er háð því að frumvarp um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, sem liggur fyrir á Alþingi, sbr. 589. mál, þskj. 963, verði samþykkt. Endanlegar reglur verða því settar eftir að frumvarpið er orðið að lögum. Frumvarpið er eitt af forgangsmálum núverandi ríkisstjórnar.

Fjármálaeftirlitið mun gefa fjármálafyrirtækjum kost á að gera athugasemdir við drögin. Frestur til að senda inn umsagnir vegna regludraganna er til 5. september nk. Umsögnum skal skila á þar til gert umsagnareyðublað sem finna má á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica