Fréttir


Fjármálaeftirlitið fylgist grannt með málum er varða úrlausn ágreiningsmála um gengislán

19.3.2015

Í tilefni af fjölmiðlaumræðu í kjölfar nýlegra niðurstaðna í gengislánamálum vekur Fjármálaeftirlitið athygli á því að eftirlitið fylgist  grannt með málum er varða úrlausn ágreiningsmála um gengislán, þ. á m. nýjustu dómsúrlausnum. Fjármálaeftirlitið er bundið þagnarskyldu um málefni einstakra eftirlitsskyldra aðila skv. 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Hins vegar getur Fjármálaeftirlitið upplýst að það hefur undanfarið átt samskipti við þau fjármálafyrirtæki sem hlut eiga að máli og bregst við þróun mála í þeim mæli sem lög leyfa og tilefni er til.

Fjármálaeftirlitinu er að ákveðnum skilyrðum uppfylltum heimilt að grípa til nauðsynlegra aðgerða, s.s. að krefjast úrbóta hjá eftirlitsskyldum aðilum og að beita þvingunaraðgerðum ef þörf krefur. Við beitingu slíkra heimilda er Fjármálaeftirlitið bundið ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem m.a. er kveðið á um andmælarétt aðila og meðalhóf í aðgerðum.

Aðeins að fenginni niðurstöðu í málum og athugunum er Fjármálaeftirlitinu heimilt að birta opinberlega upplýsingar þar að lútandi. Heimild Fjármálaeftirlitsins til þess að upplýsa um niðurstöður sínar má sjá í 9. gr. a. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Tilkynningar í eldri málum má finna á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins undir liðnum „Ákvarðanir og gagnsæi“. Sem dæmi um slíkar tilkynningar má nefna nýlegagagnsæistilkynningu er varðar niðurstöður máls gagnvart Lýsingu.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica