Fréttir


Annar fundur fjármálastöðugleikaráðs á árinu 2015

16.4.2015

Annar fundur fjármálastöðugleikaráðs á árinu 2015 var haldinn þriðjudaginn 14. apríl í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Fjármálastöðugleikaráð er formlegur samstarfsvettvangur stjórnvalda um fjármálastöðugleika.  Ráðið er vettvangur samráðs, upplýsingaskipta og stefnumótunar vegna fjármálastöðugleika og samhæfir viðbúnað opinberra aðila við fjármálakreppu.

Að mati fjármálastöðugleikaráðs er áhætta í fjármálakerfinu að mestu óbreytt frá síðasta fundi. Ytra umhverfi fjármálakerfisins er hagstætt, ytri jöfnuður er góður og ætti að stuðla að stöðugleika, staða viðskiptabankanna er ágæt, en einskiptisliðir eru þó ráðandi um afkomu þeirra, og fjármögnunarþörf þeirra í erlendum gjaldmiðlum á næstu árum hófleg. Það sem helst gæti ógnað þeim stöðugleika sem náðst hefur eru þættir sem tengjast losun fjármagnshafta.

Eftirfarandi mál voru á dagskrá:

  • Greinargerð kerfisáhættunefndar
  • Fyrsta millimarkmið um fjármálastöðugleika
  • Kerfislega mikilvægir eftirlitsskyldir aðilar
  • Veðsetningar- og lánagreiðsluhlutföll
  • Önnur mál

Samkvæmt greiningu kerfisáhættunefndar, sem starfar fyrir fjármálastöðugleikaráð, teljast fjórir eftirlitsskyldir aðilar kerfislega mikilvægir á Íslandi: Landsbankinn hf., Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Íbúðalánasjóður. Greining kerfisáhættunefndarinnar byggir á leiðbeinandi tilmælum evrópska bankaeftirlitsins um þá þætti sem liggja til grundvallar mati á kerfislega mikilvægum aðilum (EBA/GL/2014/10). Fjármálastöðugleikaráð staðfestir kerfislegt mikilvægi þessara fjögurra aðila og munu þeir lúta eftirliti í samræmi við það. 

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica