Upplýsingar til neytenda

 

Bresk fjármálafyrirtæki hafa flest gert ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu án samnings. Sum bresk fyrirtæki hafa flutt þjónustu við viðskiptavini, sem staðsettir eru innan Evrópska Efnahagssvæðisins (EES), frá viðkomandi fyrirtæki í Bretlandi til annars félags með starfsleyfi í landi innan EES. Sé slíkt gert getur fyrirtækið haldið áfram að veita viðskiptavinum innan EES þjónustu. Önnur bresk fyrirtæki hafa kosið að hætta að veita viðskiptavinum innan EES þjónustu að loknum aðlögunartímanum 31. desember 2020. Samningar viðskiptavina við þau fyrirtæki munu því renna sitt skeið er samningstíma þeirra líkur.

Seðlabankinn hvetur neytendur sem eru í viðskiptum við bresk fyrirtæki á fjármálamarkaði til að hafa samband við þau og óska eftir upplýsingum um hvort útganga Bretlands án samnings muni hafa áhrif á viðskiptasamband þeirra. Hafa skal í huga að bresk fyrirtæki hafa getað veitt þjónustu í gegnum íslenska umboðs- eða dreifingaraðila.

Seðlabankinn veitir aðstoð eftir bestu getu og bendir neytendum sem hafa spurningar vegna málsins á að senda fyrirspurnir á sedlabanki@sedlabanki.is. Seðlabankinn er þó ekki í aðstöðu til að veita upplýsingar um einstök viðskiptasambönd en getur veitt almennar upplýsingar og ráðleggingar.

Seðlabankinn hvetur neytendur sem þiggja þjónustu hjá fjármálafyrirtækjum utan EES-svæðisins að kynna sér upplýsingar sem ESMA birtir á vefsíðu sinni. Þar kemur fram að fjármálafyrirtæki hafi orðið uppvís að vafasömum viðskiptaháttum með því að beina tilmælum til neytenda að samþykkja t.d. með sprettigluggum (pop-up gluggum) að öll viðskipti sem þeir stunda séu framkvæmd að eigin frumkvæði.

ESMA reminds firms of the MiFID II rules on reverse solicitation (europa.eu)

Evrópskar eftirlitsstofnanir hafa birt upplýsingar fyrir neytendur á vefsíðum sínum er varða Brexit. Hér má finna upplýsingar frá Evrópska bankaeftirlitinu (EBA). Hér má finna upplýsingar frá Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni (ESMA).  Hér má finna upplýsingar frá Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðseftirlitsstofnuninni (EIOPA).

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica