Hlutverk Fjármálaeftirlitsins

Fjármálaeftirlitið er ríkisstofnun sem lýtur sérstakri stjórn. Stofnunin heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Í eftirfarandi lögum er nánar kveðið á um starfsemi og fjármögnun Fjármálaeftirlitsins:

 

Lög nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, fjalla um stofnunina og stjórnsýslu hennar, starfsemi, þagnarskyldu og fleira.

Lög nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Samkvæmt lögunum hefur Fjármálaeftirlitið sjálfstæðan fjárhag og ber eftirlitsskyldum aðilum að greiða sérstakt eftirlitsgjald til að standa straum af kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins.

Í lögum nr. 87/1998 er að finna lýsingu á lögbundnu hlutverki Fjármálaeftirlitsins og þeirri eftirlitsskyldu starfsemi sem lögin taka til. Fjármálaeftirlitið skal, samkvæmt 8. gr. laganna, fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og reglur og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Eftirlit Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögunum tekur til viðskiptabanka, sparisjóða, annarra lánastofnana, rafeyrisfyrirtækja, greiðslustofnana, vátryggingafélaga, félaga og einstaklinga sem stunda vátryggingamiðlun, fyrirtækja í verðbréfaþjónustu, verðbréfasjóða og rekstrarfélaga verðbréfasjóða, kauphalla, skipulagðra verðbréfamarkaða og markaðstorga fjármálagerninga (MTF), verðbréfamiðstöðva, lífeyrissjóða, auk annarra aðila sem heimild hafa til að taka á móti innlánum, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 87/1998. Lögin taka einnig til eftirlits og annarra verkefna gagnvart einstaklingum og lögaðilum samkvæmt ákvæðum sérlaga, annarra en varða þá starfsemi sem tiltekin er í 1. mgr. 2. gr., sbr. 2. og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 871998, svo sem Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og Íbúðalánasjóði. Þá er Fjármálaeftirlitinu falið að setja reglur um fjölmarga þætti í starfsemi eftirlitsskyldra aðila á grundvelli ýmissa laga auk heimilar til að gefa út og birta opinberlega almenn leiðbeinandi tilmæli um starfsemi eftirlitsskyldra aðila samkvæmt lögum nr. 87/1998.

Í sérlögum um starfsemi eftirlitsskyldra aðila er einnig að finna margvísleg ákvæði er lúta að framkvæmd eftirlits með viðkomandi starfsemi og afskiptum sem Fjármálaeftirlitinu ber að hafa af starfseminni. Lög um starfsemi þessara aðila, reglugerðir og ýmsar reglur sem settar hafa verið með tilvísun í lög má finna undir Réttarheimildir hér fyrir ofan.

Þá er Fjármálaeftirlitinu ennfremur falið hlutverk í tengslum við fjármálastöðugleika samkvæmt lögum nr. 66/2014 um fjármálastöðugleikaráð.

 

Til bakaLanguage


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica