Leitarvél

Leit í lögum og tilmælum: Sláið inn efnisorð og/eða veljið úr valmyndinni hér til hliðar.

Leiðbeinandi tilmæli

Málsnúmer 3/2014
Heiti Leiðbeinandi tilmæli um áhættustýringu og starfssvið tryggingastærðfræðings hjá vátryggingafélögum - [Ekki í gildi]
Dagsetning 22/5/2014
Starfsemi
  • Vátryggingafélög
Reifun

Fjármálaeftirlitið gefur hér með út ný leiðbeinandi tilmæli um áhættustýringu og starfssvið tryggingastærðfræðings hjá vátryggingafélögum. Hluti tilmælanna er byggður á grunni leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2011 um áhættustýringu vátryggingafélaga en gerðar eru á þeim nokkrar breytingar.

Breytingarnar eru fyrst og fremst til komnar vegna leiðbeinandi tilmæla EIOPA um stjórnkerfi (e. Guidelines on System of Governance), en samkvæmt Solvency II tilskipuninni er áhættustýring ein af grunnstoðum stjórnkerfis vátryggingafélaga. Markmið þessara tilmæla Fjármálaeftirlitsins er því fyrst og fremst að stuðla að viðeigandi undirbúningi vátryggingafélaga fyrir gildistöku Solvency II.

Gerðar hafa verið þó nokkrar einfaldanir á eldri tilmælunum, þar sem m.a. er einblínt á stýringu eftirfarandi 6 áhættuþátta: a. Vátryggingaáhættu, b. Markaðsáhættu, þ.á m. eigna- og skuldastýringu, c. Mótaðilaáhættu, d. Lausafjáráhættu, e. Rekstraráhættu og f. Eiginfjáráhættu (sem er nýjung í þessum tilmælum).

Einnig eru tvær viðbætur í þessum tilmælum: starfssvið tryggingastærðfræðings og skil á gögnum. Starfssvið tryggingastærðfræðings er hluti af stjórnkerfi vátryggingafélags samkvæmt Solvency II. Hlutverk starfssviðs tryggingastærðfræðings er að sjá um útreikning vátryggingaskuldar, bera ábyrgð á gæðum gagna sem nýtast við útreikninginn, veita ráðgjöf um áhættutöku og endurtryggingavernd og gefa skýrslu um starf sitt til stjórnar félagsins. Tilmælin kveða á um að vátryggingafélögin undirbúi að starfssvið með þetta hlutverk sé til staðar hjá félaginu.

Annar hluti undirbúningstilmæla EIOPA fjallar um skil á gögnum. Þar sem mikilvægt er að áhættustýring vátryggingafélags gefi af sér upplýsingar um stöðu félagsins, hefur Fjármálaeftirlitið fellt tilmæli um gagnaskil inn í þessi leiðbeinandi tilmæli, en skjöl með nánari leiðbeiningar um gagnaskilin fylgja þessum tilmælum. Við innleiðingu þessara tilmæla þarf að taka tillit til hlutfallsreglu (e. proportionality), þ.e. stærðar hvers vátryggingafélags, eðlis og margbreytileika. Í tilmælunum er lögð áhersla á ábyrgð og skyldur stjórna og forstjóra vátryggingafélaga. Tilmælin eiga eingöngu við um þau vátryggingafélög sem falla munu undir gildissvið Solvency II.

Skjöl Leidbeinandi_tilmaeli_2014_3-ekki-i-gildi.pdf

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica