Rekstur sjóða um sameiginlega fjárfestingu

Rekstrarfélög verðbréfasjóða

Rekstrarfélög verðbréfasjóða heyrir undir eftirlit Seðlabanka Íslands. Þau starfa samkvæmt lögum nr. 116/2021 um verðbréfasjóði. Með lögunum er UCITS (Undertakings for Collective Investment in Transferable Securities) tilskipun Evrópusambandsins innleidd í íslenskan rétt. Lögin gilda um rekstrarfélög verðbréfasjóða og rekstur og markaðssetningu verðbréfasjóða hér á landi.

Öðrum en rekstrarfélögum verðbréfasjóða er óheimilt að reka verðbréfasjóði. Þá er óheimilt að markaðssetja sjóð um sameiginlega fjárfestingu sem verðbréfasjóð nema hann hafi hlotið staðfestingu Seðlabankans sem verðbréfasjóður.

Rekstraraðilar sérhæfðra sjóða

Rekstraraðilar sérhæfðra sjóða heyra undir eftirlit Seðlabanka Íslands. Þeir starfa samkvæmt lögum nr. 45/2020, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Með lögunum er AIFM (Alternative Investment Fund Managers) tilskipun Evrópusambandsins innleidd í íslenskan rétt. Lögin gilda um rekstraraðila sem reka eða markaðssetja einn eða fleiri sérhæfða sjóði hér á landi eða í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Sérhver sérhæfður sjóður skal rekinn af rekstraraðila sérhæfðra sjóða, hvort sem rekstraraðilinn hefur hlotið til þess starfsleyfi eða skráð sig sem slíkur.

Öðrum en rekstraraðilum sérhæfðra sjóða, sem hlotið hafa til þess starfsleyfi, er óheimilt að reka sérhæfða sjóði fyrir almenna fjárfesta (áður fjárfestingarsjóðir). Þá er óheimilt að markaðssetja sjóð um sameiginlega fjárfestingu sem sérhæfðan sjóð fyrir almenna fjárfesta nema hann hafi hlotið staðfestingu Seðlabankans sem sérhæfður sjóður fyrir almenna fjárfesta.

Markaðssetning til almennra fjárfesta

Óheimilt er að markaðssetja sjóði um sameiginlega fjárfestingu til annarra en fagfjárfesta. Þó er heimilt að markaðssetja verðbréfasjóði og sérhæfða sjóði fyrir almenna fjárfesta, sem hafa hlotið til þess staðfestingu Seðlabankans.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica