Eftirlitsstarfsemi

Spurt og svarað

1 Almennt um svörin

Þessi síða hefur að geyma upplýsingar og svör varðandi þær heimildir sem veittar eru með nýjum reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál vegna samninga við erlend tryggingafélög sem fela í sér sparnað eða söfnun erlendis.

Samningar erlendra tryggingafélaga eru margir og misjafnir og eru einstaklingar með slíka samninga hvattir til að kynna sér efni þeirra vel og hafa samband við þjónustuaðila ef þurfa þykir.

2 Hverju er verið að breyta?

Með nýjum reglum um gjaldeyrismál er einstaklingum með samninga við erlend tryggingafélög, veittar heimildir til að greiða iðgjöld í innlendum gjaldeyri. Þá er erlendum tryggingafélögum, sem heimilt er að starfa hérlendis, veitt heimild til að ávaxta iðgjöldin hérlendis til samræmis við fjárfestingarheimildir innlendra aðila.          
Þannig verður heimilt að skuldbreyta samningum sem eru í erlendri mynt yfir í íslenskar krónur. Fyrir flesta einstaklinga hefur slíkt litlar eða engar breytingar í för með sér við framkvæmd greiðslna. Erlendu tryggingafélögin þurfa hins vegar að ávaxta iðgjöld viðskiptavina sinna hérlendis.

Þeir samningar sem flokkast til hreinna tryggingaafurða (til að mynda líftryggingar, sjúkdómatryggingar og skaðatryggingar) verða óbreyttir enda takmarka lög um gjaldeyrismál ekki að slík þjónustuviðskipti við erlenda aðila fari fram í erlendum gjaldeyri.            


Sumir samningar eru blandaðir og fela þannig í sér bæði hreina tryggingaafurð og sparnað. Erlendum tryggingafélögum verður gert að ávaxta sparnaðarhluta slíkra samninga hérlendis en mega kaupa erlendan gjaldeyri og flytja úr landi þann hluta sem til er kominn vegna hreinnar tryggingaafurðar. Ef tryggingafélög geta ekki greint á milli sparnaðarhluta og tryggingahluta er samningurinn í heild sinni talinn óheimill. Sérstaklega er þó tekið á blönduðum samningum þar sem líf- og/eða sjúkdómatrygging er hluti af samningnum til að tryggja að réttindi einstaklinga til bóta verði óskert.

Heimilt verður að gera nýja samninga í innlendum gjaldeyri.

3 Af hverju er verið að breyta þessu?

Allt frá því að fjármagnshöft voru sett hér á landi hinn 28. nóvember 2008 hefur bann verið lagt við sparnaði og fjárfestingum erlendis.
Seðlabanki Íslands hefur um nokkra hríð haft til skoðunar hvort samningar erlendra tryggingafélaga sem boðnir hafa verið til sölu hér á landi séu í samræmi við lög og reglur um gjaldeyrismál. Athugun bankans hefur leitt í ljós að ýmsar tegundir samninga fela í sér óheimilan sparnað eða söfnun erlendis. Slíkir samningar varða fjölda innlendra einstaklinga og hafa umsvif og útflæði fjármagns vegna þeirra aukist verulega eftir höft. Til þess að gæta að hagsmunum þessara einstaklinga og gera þeim kleift að viðhalda samningssambandi sínu á grundvelli breyttra skilmála, hefur Seðlabankinn gefið út nýjar reglur um gjaldeyrismál. Með reglunum er erlendum tryggingafélögum jafnframt veittar fjárfestingarheimildir til samræmis við innlenda aðila.

4 Hvaða samningar falla undir fjármagnshöft?

Samningar sem gerðir voru eftir setningu fjármagnshafta og fela í sér sparnað erlendis. Það á bæði við um samninga sem eru eingöngu sparnaðarsamningar en einnig blandaða samninga þar sem hluti samnings felst í sparnaði og annar hluti í hefðbundinni vátryggingu. Hér er t.d. um að ræða viðbótartryggingavernd, séreignasparnað, söfnunartryggingar, sparnað og eingreiðslulíftryggingar  sem fela í sér fjármagnshreyfingar á milli landa.

Vátryggingasamningar sem fela hvorki í sér söfnun né sparnað (s.s líf- og/eða sjúkdómatrygging án söfnunar) teljast til kaupa á þjónustu og eru ekki takmarkaðir af fjármagnshöftum þrátt fyrir að iðgjaldagreiðslur fari fram í erlendum gjaldmiðli. M.ö.o. samningum er varða hreinar tryggingarafurðir án sparnaðar, svo sem líftryggingar, sjúkdómatryggingar og skaðatryggingar, þarf ekki að breyta þar sem slíkir samningar falla undir þjónustukaup í skilningi laga um gjaldeyrismál.

5 Samningurinn minn er gerður fyrir 28. nóvember 2008. Hvaða áhrif hafa fjármagnshöft á þann samning?

Þeir sem gerðu samninga við hin erlendu tryggingafélög fyrir setningu fjármagnshafta, þann 28. nóvember 2008, þurfa ekki að breyta samningum sínum. Gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa vegna samningsbundinna afborgana slíkra samninga eru heimil, sbr. 13. gr. j. laga um gjaldeyrismál.

Athuga ber þó að ekki er heimilt að auka greiðslur umfram það sem fram kemur í samningi og eingreiðslur eru óheimilar.

6 Samningurinn minn er blandaður samningur og gerður eftir 28. nóvember 2008. Hvaða áhrif hafa gjaldeyrishöftin á þann samning?

Seðlabankinn hefur lagt áherslu á að þjónustuaðilar erlendra tryggingafélaga sem heimild hafa til að starfa hér á landi hafi frumkvæði að því að bregðast við breytingum á reglum um gjaldeyrismál fyrir lok þess aðlögunartímabils sem Seðlabankinn hefur veitt aðilum, eða fyrir 18. október 2014.

Að öðru leyti er aðilum vísað á að hafa samband við þjónustuaðila tryggingarfélags síns hér á landi óski þeir eftir nánari upplýsingum.

7 Ég er með líf- og/eða sjúkdómatryggingu sem felur hvorki í sér söfnunar- né sparnaðarþátt hjá erlendu vátryggingafélagi. Hvaða áhrif hafa fjármagnshöft á þann samning?

Ef um er að ræða hreina tryggingaafurð án sparnaðar erlendis, svo sem líftryggingu, sjúkdómatryggingu og skaðatryggingu, er hún heimil enda slíkt flokkað sem þjónustukaup í skilningi laga um gjaldeyrismál.

Ef þú ert óviss um hvort samningurinn þinn sé innihaldi söfnunar- eða sparnaðarþátt er þér bent á að leita upplýsinga hjá þeim aðila, vátryggingamiðlara eða umboðsaðila, sem kom samningnum á.

8 Eru blandaðir samningar takmarkaðir af fjármagnshöftum?

Feli samningur bæði í sér tryggingu og söfnun eða sparnað og ekki er unnt að aðskilja þessa tvo þætti samræmist slíkur samningur ekki ákvæðum laga um gjaldeyrismál. Þó er aðilum sem gerðu samning fyrir setningu fjármagnshafta heimilt að standa við sína samninga.

Sérstaklega er tekið á blönduðum samningum þar sem líf- og/eða sjúkdómatrygging er hluti af samningnum til að tryggja að réttindi einstaklinga til bóta verði óskert.

Athygli er vakin á að blandaðir samningar, þar sem tryggingarhluti varðar sjúkdóma- og líftryggingar, eru sérstaklega heimilir samkvæmt reglum um gjaldeyrismál. Sú heimild er til að tryggja réttindi einstaklinga til greiðslu tryggingabóta samkvæmt tryggingahluta samninganna, enda mögulegt að sambærileg trygging standi þeim ekki lengur til boða, m.a. á grundvelli annars áhættumats annars tryggingafélags. Skilmálar samninga sem falla undir framangreinda grein skulu innifela í sér raunverulega tryggingu þar sem fjárhæð greiðslu tryggingabóta eru óháð uppsöfnuðum höfuðstól.

9 Hvaða greiðslur eru heimilar?

1. Iðgjaldagreiðslur sem varða hreinar tryggingaafurðir án sparnaðar erlendis, svo sem líftrygginga, sjúkdómatrygginga, slysatrygginga og skaðatrygginga eru heimilar sem fyrr, þar sem slíkir samningar falla undir þjónustukaup í skilningi laga um gjaldeyrismál.

2. Erlendum tryggingafélögum er áfram heimilt að senda út greiðslur vegna þjónustuþáttar í blönduðum afurðum í erlendum gjaldeyri. Er þá átt við þann hluta samnings sem sannanlega er vegna vátryggingar en ekki vegna sparnaðar erlendis.

3. Iðgjaldagreiðslur sem teljast samningsbundnar afborganir af samningum sem gerðir voru fyrir setningu fjármagnshafta hér á landi hinn 28. nóvember 2008 eru heimilar, sbr. 13. gr. j. laga um gjaldeyrismál. Rétt er að árétta að ekki er heimilt að auka greiðslur umfram það sem fram kemur í samningi og eingreiðslur eru óheimilar.

10 Hvar fæ ég upplýsingar um hvort minn samningur falli undir fjármagnshöft?

Aðilum er bent á að hafa samband við þjónustuaðila hinna erlendu tryggingarfélaga hér á landi sem leiðbeina einstaklingum um hvort og þá hvernig breytingarnar hafa áhrif á þeirra samninga.

11 Hver er þjónustuaðili minn?

Þjónustuaðilinn þinn er sá sem hafði milligöngu um gerð samningsins. Þjónustuaðilar eru m.a.

·         Allianz á Íslandi, http://www.allianz.is

·         Sparnaður ehf., http://www.sparnadur.is

·         Hagsmunir LTR ehf., http://www.hagsmunir.is

·         Tryggingar og ráðgjöf ehf., http://www.tryggir.is

·         Áhættulausnir ehf., http://alausnir.is/

·         Árni Reynisson ehf.,

·         Consello ehf., http://consello.is/

·         Fjárfestingamiðlun Íslands ehf.,

·         Nýja vátryggingaþjónustan ehf., http://nyva.is/

·         Tryggingamiðlun Íslands ehf., http://www.tmi.is/

·         Tryggingar og ráðgjöf ehf., http://www.tryggir.is/

·         Tryggja ehf., http://www.tryggja.is/

·         Friðbert Elí Friðbertsson vátryggingamiðlari

·         Guðmundur Ólafur Hafsteinsson vátryggingamiðlari

·         Guðmundur Þór Magnússon vátryggingamiðlari

·         Karl Jónsson vátryggingamiðlari

·         Lárus Hrafn Lárusson vátryggingamiðlari

·         Olaf Forberg vátryggingamiðlari

·         Ómar Einarsson vátryggingamiðlari

·         Smári Ríkarðsson vátryggingamiðlari

·         Sveinn Giovanni Segatta vátryggingamiðlari

·         Sæmundur Steindór Magnússon vátryggingamiðlari

·         Þorlákur Pétursson vátryggingamiðlari

Til viðbótar má nefna að Allianz á Íslandi hf. er sérstakur umboðsaðili Allianz og Sparnaður ehf. er sérstakur umboðsaðili Bayern-Versicherung á Íslandi.

12 Hvað felur aðlögunartímabil í sér og hvaða þýðingu hefur það?

Seðlabankinn hefur veitt tímabundna undanþágu frá viðeigandi bannákvæðum laga um gjaldeyrismál. Undanþágan er tímabundin til 18. október nk. (til fjögurra mánaða) og er tilgangur hennar tvíþættur.  
1. Veita erlendum tryggingafélögum tímabundið svigrúm til að koma sér upp aðstöðu til þess að fjárfesta innanlands fyrir greidd iðgjöld. 
2. Veita samningsaðilum svigrúm til að breyta skilmálum samninga sinna þannig að þeir séu í innlendum gjaldeyri, eða til að fara í ótímabundið greiðsluhlé sé það heimilt samkvæmt skilmálum samnings. Á aðlögunartímabilinu er því heimilt að haga greiðslum samninga og uppgjöri vegna þeirra á sama hátt og verið hefur en þó er óheimilt að auka greiðslur á aðlögunartímabili.          
Undanþágan hefur verið birt á heimasíðu Seðlabanka Íslands, hér.

13 Hvað gerist eftir að aðlögunartímabilinu lýkur?

Undanþágur vegna aðlögunartímabils renna út og lokað verður fyrir greiðslu iðgjalda á grundvelli samninga sem teljast ekki samræmast fjármagnshöftum.

Eftir að aðlögunartímabili lýkur er ráðgert að búið verði að leysa úr álitaefnum þannig að unnt verði að halda samningum áfram með hætti sem samræmist fjármagnshöftum. 

14 Hvað er greiðsluhlé?

Í einhverjum tilvikum kveða samningar sem erlendu tryggingafélögin bjóða upp á um að einstaklingar geti tekið sér greiðslu- eða iðgjaldahlé í ákveðinn tíma. Misjafnt er eftir samningum hvort og þá hversu lengi slíkt greiðsluhlé er leyft og enn fremur er tryggingavernd í hléum misjöfn, ef afurðin inniheldur slíkt.

Einstaklingar sem hafa hug á að fara í greiðsluhlé eru hvattir til að kynna sér skilmála síns samnings og/eða hafa samband við þjónustuaðila til að kanna rétt sinn á greiðsluhléi.

15 Getur vátryggingafélagið rift samningum við mig?

Einstaklingum, sem gert hafa samninga við erlend tryggingafélög sem fela í sér söfnun eða sparnað, verður veitt heimild til að greiða iðgjöld í íslenskum krónum, og er þar með gert kleift að standa skil á gerðum samningum, til samræmis við íslensk lög.

Mælt er fyrir um riftunarheimildir aðila í skilmálum viðkomandi samninga.

16 Hvað er endurkaupsverð/endurkaupsvirði?

Endurkaupsvirði eða endurkaupsverð er virði eða staða samnings á hverjum tíma. Almennt samanstendur endurkaupsvirði af inngreiðslum og ávöxtun þeirra að frádregnum kostnaði. Fyrst um sinn er endurkaupsvirði samninga lægra en greidd fjárhæð, vegna þess kostnaðar sem fellur til, en eftir því sem líður á samninginn hækkar endurkaupsvirðið. Ef samningi er slitið fyrir lok samningstíma er endurkaupsvirði almennt sú fjárhæð sem einstaklingar fá í sinn hlut.

17 Hvað er viðbótartryggingavernd?

Viðbótartryggingavernd er í daglegu tali nefnt séreignarsparnaður eða viðbótarlífeyrissparnaður.
Með viðbótartryggingavernd er átt við samning um lífeyrissparnað einstaklinga samkvæmt II. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem felur í sér viðbótartryggingavernd umfram lágmarkstryggingavernd einstaklinga vegna skylduaðildar þeirra að lífeyriskerfinu.

18 Hverjir eru vörsluaðilar lífeyrissparnaðar?

Þeir aðilar sem heimild hafa skv. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997 til að stunda starfsemi skv. II. kafla þeirra laga og taka við iðgjaldi með samningi um viðbótartryggingavernd, þ.e. lífeyrissjóðir, bankar, sparisjóðir, líftryggingafélög og verðbréfafyrirtæki sem starfa skv. 8. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, enda hafi þessir aðilar starfsstöð hér á landi, sbr. reglugerð 698/1998.

19 Get ég flutt séreignarsparnað milli innlendra og erlendra vörsluaðila?

Að svo stöddu, á meðan aðlögunartímabili stendur, er ekki gert ráð fyrir að slíkt sé hægt en þó er hægt að sækja um undanþágu fyrir slíkum flutningi til Seðlabanka Íslands. Á aðlögunartímabilinu gefst tækifæri til að meta hvort opnað verði fyrir flutning á séreignarsparnaði milli innlendra og erlendra aðila.

Eyðublað vegna umsóknar um undanþágu má finna hér.

20 Hvað á ég sem neytandi að gera?

Á aðlögunartímabili ættu neytendur ekki að verða varir við breytingar á samningi sínum. Seðlabanki Íslands mun á þessum tíma vinna að úrlausn álitaefna til þess að unnt verði að halda öllum samningum áfram, þó í þannig horfi að það samræmist fjármagnshöftum.

Neytendur ættu því ekki að þurfa að grípa til sérstakra ráðstafanna en er bent á að leita upplýsinga hjá þeim aðila, vátryggingamiðlara eða umboðsaðila, sem kom samningnum á til þess að fá nánari upplýsingar.

21Nánari upplýsingar

Tilkynning Seðlabanka Íslands

Tilkynning Fjármálaeftirlitsins

Upplýsingar um gjaldeyrismál

Neytendavernd Fjármálaeftirlitsins

Lög um gjaldeyrismál

Reglur um gjaldeyrismál
Til bakaLanguage


Útlit síðu:

Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica