Eftirlitsstarfsemi

CRD IV

Hvað er CRD IV?

CRD IV er hryggjarstykkið í samevrópsku regluverki (e. single rule book) fyrir fjármálafyrirtæki sem starfa á innri markaði ESB. Um er að ræða eina heilsteypta löggjöf á sviði Evrópuréttar sem samanstendur af annars vegar tilskipun og hins vegar reglugerð, þ.e. tilskipun 2013/36/ESB (Opnast í nýjum vafraglugga) og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 (Opnast í nýjum vafraglugga) . Með CRD IV verða tvær megintilskipanir ESB á bankamarkaði – tilskipun 2006/48/EB (einnig nefnd CRD eða Capital Requirements Directive) og tilskipun 2006/49/EB (CAD eða Capital Adequacy Directive) – sameinaðar í einn pakka eða eina löggjöf: CRD IV. Eins og nafnið bendir til er um að ræða fjórðu endurskoðun umræddra tilskipana frá árinu 2006. Meginefni CRD IV eru auknar kröfur til fjármálafyrirtækja um laust fé og eigið fé, í samræmi við Basel III staðalinn. Líkt og Basel III staðallinn felur í sér, er fjármálafyrirtækjum ætlað að byggja upp eigið fé á nokkrum árum og munu sum ákvæði reglugerðarhluta CRD IV ekki verða að fullu komin í gildi fyrr en árið 2018.

CRD IV innleiðir Basel III staðalinn í EES

CRD IV felur í sér innleiðingu á alþjóðlega Basel III staðlinum um eiginfjárkröfur fjármálafyrirtækja. Munurinn á Basel III og CRD IV er hins vegar í stuttu máli sá að Basel III er alþjóðlegur staðall sem ekki er bindandi að lögum fyrir þau ríki sem styðjast við hann. CRD IV er hins vegar löggjöf, þ.e. bindandi fyrirmæli, og er Ísland skuldbundið til að taka upp ákvæði löggjafarinnar í gegnum aðild landsins að Evrópska efnahagssvæðinu. Þar fyrir utan felur CRD IV í sér ýmis ný efnisatriði sem innleiða þarf í lög innan Evrópska efnahagssvæðisins en eru ekki hluti af Basel III staðlinum, þ.m.t. ákvæði er varða viðurlög og stjórnarhætti fjármálafyrirtækja.  CRD IV felur einnig í sér uppfærslur á efni sem hefur verið í eldri tilskipunum varðandi starfsemi og eiginfjárútreikning lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, s.s. vegna eftirlits með fjármálafyrirtækjum sem starfa á innri markaði EES, skilgreininga á áhættuþáttum og framkvæmd könnunar- og matsferlis eftirlitsstofnana (SREP).

Hvað hefur tvískipting CRD IV í reglugerð og tilskipun í för með sér?

Skipting þess efnis sem er að finna í annars vegar reglugerðinni og tilskipuninni sem CRD IV samanstendur af er mikilvæg. Hluti þess efnis sem verður í reglugerð (ESB) nr. 575/2013 verður ekki innleiddur með sama hætti og áður, s.s. með útfærslu í ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eða reglum Fjármálaeftirlitsins settum á grundvelli þeirra. Orðalag reglugerðarinnar mun hafa sjálfstætt lagagildi í aðildarríkjum ESB og verður ríkjunum óheimilt að innleiða ákvæðin sérstaklega í lög.

Á meðal þeirra efnisatriða sem koma fyrir í tilskipun 2013/36/ESB eru ákvæði er varða eiginfjárauka (e. capital buffers), viðurlög vegna brota fjármálafyrirtækja, könnunar- og matsferli eftirlitsstofnana (SREP), starfsemi á milli ríkja, starfsleyfismál og virka eignarhluti. Umrædd ákvæði tilskipunarinnar þarf að innleiða í landsrétt hvers aðildarríkis ESB fyrir sig og er þeim því játað nokkuð svigrúm til innleiðingar þeirra. Hins vegar tilheyra reglugerð (ESB) nr. 575/2013 flestar skilgreiningar CRD IV auk ákvæða um samstæðueftirlit og útreikning á eiginfjárkröfum fjármálafyrirtækja, vogunarhlutföll (e. leverage ratio), lausafjárhlutföll og stórar áhættuskuldbindingar. Ákvæði reglugerðarinnar varðandi þessa efnisþætti verða því ekki innleidd sérstaklega í landsrétt aðildarríkja ESB, heldur hefur reglugerðin sjálfstætt lagagildi.

Hvernig verður CRD IV innleidd hér á landi?

Tilskipun 2013/36/ESB verður útfærð í lögum en reglugerð (ESB) nr. 575/2013 verður innleidd sem reglugerð sett með heimild í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Flestir tæknilegir efnisþættir í starfsemi fjármálafyrirtækja sem nú eru bundnir í lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eða reglur settar skv. þeim, verða eftir lögfestingu reglugerðarinnar lögfest hér á landi sem viðauki við reglugerð sem mun útfæra heimildar- og valákvæði reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.

Við innleiðingu CRD IV hefur Fjármálaeftirlitið lagt áherslu á þrjú mikilvæg atriði: Heimildar- og valákvæði til frávika (e. options and national discretions), úrlausnir vegna mögulegrar skörunar í CRD IV pakkanum við sérreglur íslenskra laga og greiningu tæknistaðla. Nokkuð er um heimildar- og valákvæði í tilskipun 2013/36/ESB og reglugerð (ESB) nr. 575/2013. Tilskipunarákvæðin varða fyrst og fremst uppsetningu og gildi vegna eiginfjárauka, en ákvæðin í reglugerðin varða m.a. einstaka áhættuþætti, frádráttarliði vegna stórra áhættuskuldbindinga og frádráttarliði frá eiginfjárgrunni. Auk þessa verður við innleiðingu CRD IV að huga að mögulegri skörun sem reglugerðin kann að hafa með tilliti til íslenskra laga. Ganga þarf úr skugga um að ákvæði laga og reglna hér á landi stangist ekki á við ákvæði reglugerðar (EB) nr. 575/2013.

Hver er munurinn á Basel III og CRD IV?

Þegar rætt er um Basel III er vísað til tveggja skjala sem alþjóðlega Basel nefndin gaf út á árunum 2009 og 2010, annars vegar um eftirlit með lausu fé og afmörkun á magni og gæðum fjármagns sem fjármálafyrirtæki ættu að hafa til að mæta lausafjáráhættu og hins vegar um eiginfjárgrunn og afmörkun á magni og gæðum fjármagns sem fjármálafyrirtæki ættu að halda til að mæta öðrum áhættum í starfsemi sinni. Basel III er alþjóðlegur staðall sem felur í sér endurskoðun á Basel II, þ.e. þeim alþjóðlega staðli sem samþykktur var 2005-2006 og lögfestur á EES-svæðinu í gegnum tilskipanir 2006/48/EB (CRD) og 2006/49/EB (CAD). Basel II fól í sér verulegar breytingar á útreikningi á eiginfjárkröfum fjármálafyrirtækja, sem í grófum dráttum gengu út á að fjármálafyrirtækjum var sjálfum falið að mæla og meta áhættu í starfsemi sinni, og eiginfjárútreikningar tóku í kjölfarið mið af því hvernig tókst til varðandi áhættustýringu fjármálafyrirtækja. Basel II var á sínum tíma umfangsmikil endurskoðun á upphaflega Basel staðlinum frá árinu 1988, sem fól í sér fyrstu alþjóðlegu viðmiðin um það hversu hátt hlutfall eigið fé fjármálafyrirtækja ætti að vera svo alþjóðlegir bankar gætu starfað milli ríkja. 

Basel III tekur til áhættu í starfsemi fjármálafyrirtækja sem almennt er talið að Basel II hafi ekki að fullu náð til. Basel III er reyndar sérkennilegur staðall að því leyti að hann er nokkuð hreyfanlegur. Þannig var þeim hluta Basel III sem fól í sér ný lausafjárviðmið breytt og hann endurútgefinn í janúar árið 2013. Í nýju útgáfunni er gert ráð fyrir aðlögunartíma (e. phase-in) frá 2015 þar til fjármálafyrirtæki þurfa að uppfylla lausafjárviðmiðin að fullu árið 2019. Annað af mikilvægum eftirlitstækjum Basel III: Vogunarhlutfallið (e. leverage ratio) verður ekki heldur komið í gagnið fyrr en árið 2018 og var ákvæðum alþjóðlega staðalsins um útreikning hlutfallsins breytt á árunum 2010 - 2014. Líklegt má telja að útreikningi vogunarhlutfallsins skv. eiginfjárhluta Basel III verði hagað með öðrum hætti en samkvæmt afleiddu gerðinni sem Framkvæmdastjórn ESB setur til að lögfesta vogunarhlutfallið innan EES. Enn fremur mun uppbygging lágmarks eiginfjárgrunns eiga sér stað yfir nokkurra ára tímabil frá 2014-2018. Vegna þessarar aðlögunar allrar er enn nokkur tími þar til Basel III verður að fullu kominn í gagnið. Af þessum sökum ber Basel III þess merki að vera ferli, frekar en staðall í hefðbundinni merkingu þess orðs.

CRD IV er aftur á móti löggjöf, samevrópskt regluverk – ein löggjöf sem mun gilda fyrir alla banka í Evrópu. Basel III er hlutmengi í CRD IV, en CRD IV er mun stærra verkefni. Viðurlög og lágmarksrefsingar við tilteknum brotum, upplýsingagjöf vegna skuggabankastarfsemi, umfangsmikil samevrópsk skýrsluskil, nýtt fyrirkomulag með eftirliti vegna starfsemi milli ríkja, samevrópsk lagaákvæði um áhættuþætti og SREP, áhættustýringu og stjórnarhætti, breytingar á öðru efni en því sem eru nýmæli - þar með talið áhættuvogum vegna staðalaðferðar og stórum áhættuskuldbindingum – þetta og ótal margt fleira er efni sem fylgir CRD IV, en er ekki til umfjöllunar í Basel III. 

Hvað fela Basel III og CRD IV í sér með tilliti til lausafjárhlutfalls (LCR) og hlutfalls stöðugrar fjármögnunar (NSFR)?

Basel III staðallinn skiptist í tvo hluta: Annar hluti Basel III snýr að eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækja og endurbótum á alþjóðlegum lágmarksviðmiðum um hann. Hinn hlutinn varðar lausafjárhlutfall (e. liquidity coverage ratio) og kom út í endurskoðaðri útgáfu í janúar 2013. Á grundvelli Basel III er fjármálafyrirtækjum m.a. ætlað að viðhafa forða af lausu fé til að mæta áföllum í rekstri. Lausafjárhlutfall fjármálafyrirtækja verður reiknað út frá tveimur breytum: i) birgðum af hágæða lausafjáreignum (e. HQLA – high quality liquid assets) og heildarútflæði fjármagns (e. total net cash outflows).

Hlutfall lausafjáreigna á móti útflæði skal vera meira en 100 prósent. Í Basel III er útlistað nákvæmlega hvers konar eignir geta fallið undir að vera hágæða lausafjáreignir og með hvaða hætti skuli meta eignir vegna innflæðis og útflæðis fjármagns. Lausafjárhluti Basel III fjallar einnig um lágmark stöðugrar fjármögnunar og hættuna á því að skuldbindingar fjármálafyrirtækja séu mislangar m.t.t. ólíkra gjaldmiðla eða að fjármálafyrirtæki treysti um of á fjármögnun frá einum aðila.

Meðhöndlun lausafjáráhættu er tvískipt samkvæmt CRD IV löggjöfinni. Umfjöllun um lausafjáráhættu og aðra meiri háttar áhættuþætti í starfsemi fjármálafyrirtækja, sem og SREP og valdheimildir lögbærra yfirvalda vegna þess, koma fram í 72. – 108. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Hins vegar er fjallað um lausafjárhlutfallið sjálft og skýrslugjöf vegna lausafjármála í sjötta hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Fyrirætlunin er sú að ein lausafjárskýrsla muni ná til allra fjármálafyrirtækja í Evrópu og  liggur slík lausafjárskýrsla þegar fyrir.

Seðlabanki Íslands hefur gefið út reglur um lausafjárhlutfall o.fl., nr. 1055/2013, sem varðar útreikning á lausafjárhlutfalli fjármálafyrirtækja, en reglurnar fela í sér sama efni og lausafjárhluti Basel III. Með lögum nr. 47/2013 var Seðlabanka Íslands enn fremur fengið það hlutverk að semja reglur um lágmark stöðugrar fjármögnunar. Ætla má að væntanlegar reglur um lágmark stöðugrar fjármögnunar muni byggja á þeim viðmiðum sem fram koma í Basel III. Óvíst er hins vegar hversu langlífar umræddar reglur verða, því skv. 412. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 munu sérreglur aðildarríkja ESB og EES víkja fyrir afleiddri reglugerð sem Framkvæmdastjórn ESB setur á grundvelli tillagna EBA að tæknistöðlum um lausfjáráhættu. Unnið hefur verið að afleiddu gerðinni á árinu 2014 og mun gildistaka hennar fela í sér samræmingu á útreikningi lausafjárhlutfalls fyrir fjármálafyrirtæki innan Evrópusambandsins.

Hvað fela Basel III og CRD IV í sér með tilliti til eiginfjárgrunns, eiginfjárauka og vogunarhlutfalls?

Með Basel III er leitast við að endurskilgreina hvers konar gerninga fjármálafyrirtæki geta talið til eigin fjár, með það að augnamiði að gæði eigin fjár fjármálafyrirtækja verði meiri. Með ákvæðum um eiginfjárauka (e. capital buffers) er leitast við að tryggja að fjármálafyrirtæki haldi eftir nægu eigin fé til að mæta áföllum sem ekki er víst að aðferðir þeirra til að stýra áhættu taki til. Slíka eiginfjárauka á að sama skapi að nýta til að vinna gegn óhóflegri aukningu útlána hjá fjármálafyrirtækjum. Að lokum er svokallað vogunarhlutfall (e. leverage ratio) kynnt til leiks í Basel III staðlinum. Slíku lágmarki er ætlað að vinna gegn yfirskuldsetningu fjármálafyrirtækja með vísan til þess að í alþjóðlegu fjármála- og bankakreppunni sem enn stendur yfir hafa yfirskuldsett fjármálafyrirtæki þurft að selja eignir á niðursettu verði til að borga upp skuldir. Þær ráðstafanir hafa dýpkað vandann sem við var að etja. 

Í Basel III er eiginfjárgrunninum skipt í tvo þætti: i) Þátt 1 (e. Tier 1) og ii) Þátt 2 (e. Tier 2). Umræddir hlutar samsvara að nokkru leyti eiginfjárþætti A og B í núgildandi 4. – 5. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 en eiginfjárþáttur C fellur niður með Basel III. Þáttur 1 skiptist enn fremur í tvo hluta: a) Almennt eigið fé undir Þætti 1 (e. Common Equity Tier 1) og b) Viðbótar eigið fé undir Þætti 1 (e. Additional Tier 1). Basel III útlistar eiginleika allra þeirra gerninga sem geta talist til umræddra þátta, þ.e. þau skilyrði sem þau verða að uppfylla til að geta talist til almenns eigin fjár eða viðbótar eigin fjár. Þessi sömu skilyrði koma fyrir í 26. – 28. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Skipting milli þátta vegna eiginfjárgrunns samkvæmt Basel III skiptir máli fyrir uppbyggingu lágmarks eiginfjárgrunns. Þannig er ætlunin að fjármálafyrirtæki byggi upp eigið fé sem fellur undir Þátt 1 nokkuð hratt á komandi árum og að það hlutfall hækki úr 4,5% upp í 6% á árunum 2013- 2015. Lágmarks hlutfall almenns eigin fjár undir Þætti 1 á að hækka úr 3,5% árið 2013 upp í 4,5% árið 2015. Sambærileg hlutföll koma fyrir í 93. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 nema að þar eru umrædd lágmörk lögfest í 4,5% og 6% og urðu þau því lágmarkskrafa innan Evrópusambandsins við gildistöku CRD IV löggjafarinnar þann 1. janúar 2014.

Eiginfjáraukarnir (e. capital buffers) eru hins vegar meðhöndlaðir með ólíkum hætti innan Basel III og CRD IV. Í Basel III eru einungis tilgreindar tvær gerðir eiginfjárauka: Varúðarauki (e. capital conservation buffer) og hagsveiflujöfnunarauki (e. countercyclical buffer). Í CRD IV eru hins vegar afmarkaðar fimm gerðir eiginfjárauka, sem hver fyrir sig hefur ákveðið hámark og er eingöngu nýttur við ákveðin skilyrði. Um er að ræða fyrrnefndan varúðarauka, kerfisáhættuauka (e. systemic risk buffer), hagsveiflujöfnunarauka á stofnanir (e. institution-specific countercyclical buffer), eiginfjárauka á kerfislega mikilvægar stofnanir á alþjóðavísu (e. global systemic institution buffer), og eiginfjárauka á aðrar kerfislega mikilvægar stofnanir (e. other systemically important institutions). Öllum aðildarríkjum ESB er skylt að koma á varúðarauka upp á 2,5%. Hins vegar eru hinir eiginfjáraukarnir misháir og misjafnt hvort aðildarríkjum er skylt eða heimilt að setja á umrædda eiginfjárauka. Tilgreina skal samanlagða eiginfjáraukakröfu (e. combined buffer requirement) og meðhöndla hana skv. ákvæðum 139. gr. tilskipunar 2013/36/ESB. Umræddir eiginfjáraukar verði innleiddir í lög hér á landi á komandi misserum.

Vogunarhlutfallið byggir á hinum endurskilgreinda eiginfjárgrunni eins og hann er afmarkaður samkvæmt Basel III staðlinum og 429. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Skv. Basel III er hlutfallið Þáttur 1 deilt með heildar áhættuskuldbindingum, þ.e. eignum og ábyrgðum, sem ekki eru dregnar frá við ákvörðun Þáttar 1. Vogunarhlutfallið sjálft skal vera að lágmarki 3%. Hins vegar er enn unnið að því að fínstilla vogunarhlutfallið sem eftirlitstæki, þ.e. með því að njörva niður skilgreiningu á því hvaða þættir eigin fjár og áhættuskuldbindinga mynda þetta hlutfall. Gagnrýnisraddir hafa heyrst vegna þessarar vinnu; m.a. að vogunarhlutfallið megi ekki verða svo íþyngjandi að það komi niður á beitingu staðalaðferðar til útreiknings á útlánaáhættu og geri hana óþarfa. Frá og með 1. janúar 2013 og til 1. janúar 2017 mun alþjóðlega Basel nefndin fylgjast með því að fjármálafyrirtæki hlíti og geti uppfyllt kröfur um vogunarhlutfallið, hver sem svo hin endanlega alþjóðlega skilgreining verður. Á sama tímabilimun EBA vinna að þróun, mælingum og mati til að Framkvæmdastjórn ESB geti lögfest samræmd bindandi lágmarksviðmið með setningu afleiddrar gerðar sem þó mun taka tillit til starfsemi ólíkra gerða fjármálafyrirtækja, sbr. 511. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.

Hvaða kröfur fylgja CRD IV með tilliti til nýrra skýrslna?

 

Gagnaskilatæknistaðall CRD IV mun hafa í för með sér mikil áhrif á skýrslugjöf hér á landi, sem og í öðrum Evrópuríkjum. Skýrslugjöfinni munu fylgja talsverðar kröfur. EBA hefur þegar lagt fram lokadrög að tæknilegum framkvæmdastaðli (e. implementing technical standard) sem mun fela í sér samræmda tíðni og framsetningu skýrslugjafar í allri Evrópu. Allar skýrslur fyrir liðlega 8800 banka í Evrópu verða sendar á samræmdu formi á sama tíma til eftirlitsstofnana í Evrópu og þaðan til EBA. Drögin að tæknistaðlinum ná til sex lykilþátta í starfsemi fjármálafyrirtækja: Útreikninga á eiginfjárgrunni (COREP), fjárhagsstöðu (FINREP), stórra áhættuskuldbindinga, vogunarhlutfalls, lausafjárhlutfalls og taps vegna fasteignalána. Einnig er í vinnslu meira efni innan EBA, þ.e. fleiri gerðir af skýrslum og skýrsluformum sem verða hluti af tæknistaðli um samræmd evrópsk skýrsluskil. Á meðal þeirra má nefna skýrslu um veðsetningu eigna (e. asset encumbrance). 

Hvað er XBRL?

Tæknistaðlinum um skýrsluskil fylgja ítarlegar útlistanir á gagnalíkani (e. data point model) sem liggur til grundvallar skýrslugjöfinni, en líkanið lýsir þeim gögnum sem skilað er til eftirlita á XBRL formi og auðveldar myndun og móttöku XBRL skjala, auk þess sem það myndar umræðugrundvöll við skilgreiningu og úrvinnslu þeirra upplýsinga sem skilað er. XBRL (e. extensible business reporting language) er staðall sem nær til skilgreiningar á gögnum varðandi fjárhagsupplýsingar fyrirtækja ásamt gagnareglum til að tryggja gæði þeirra gagna sem skilað er. Innleiðing tæknistaðalsins, þ.e. eftir að hann verður samþykktur, mun kalla á umfangsmikla vinnu hér á landi við að uppfæra gömul skýrsluform og taka upp ný. Staðallinn mun kalla á nýjar tæknilausnir og mannauð sem vinna þarf að þeim breytingum sem framundan eru, þ.e. svo framarlega sem Ísland verði áfram aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Sjá einnig upplýsingar um Rafræn skil á XBRL formi.

Allar fyrirspurnir varðandi CRD IV sendist á crdiv@fme.is

Þessi texti var síðast uppfærður þann 4. mars 2015.

Til bakaLanguage


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica