Skortsölureglugerðin

Skortsölureglugerðin er reglugerð Evrópusambandsins (ESB) nr. 236/2012 frá 14. mars 2012 um skortsölu og tiltekna þætti skuldatrygginga. 

Í reglugerðinni eru gerðar kröfur um að skortstöður séu tilkynntar til lögbærra yfirvalda (Seðlabankinn er lögbært yfirvald í tilviki Íslands) að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Möguleikar til skortsölu eru takmarkaðir og lögbærum yfirvöldum eru veittar heimildir til að stöðva tímabundið skortsölu eða takmarka slík viðskipti undir ákveðnum kringumstæðum.

Reglugerðinni er ætlað að:

  • auka gagnsæi vegna skortsölu tiltekinna fjármálagerninga,
  • draga úr uppgjörsáhættu og annarri áhættu vegna óvarinna skortstaða,
  • draga úr áhættu á mörkuðum með ríkisskuldabréf sem skapast vegna óvarinna staða í skuldatryggingum,
  • sjá til þess að lögbær yfirvöld hafi skýra heimild til að grípa til ráðstafana við óvenjulegar aðstæður sem kunna að auka á kerfisáhættu og hafa neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika,
  • tryggja samræmingu milli aðildarríkja og Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsins (ESMA) þegar óvenjulegar aðstæður ríkja á fjármálamörkuðum.

Innleiðing reglugerðarinnar

Reglugerðin var innleidd í íslensk lög með lögum nr. 55/2017. Skortsölureglugerðin samanstendur af reglugerð (ESB) nr. 236/2012 auk framkvæmdareglugerða og afleiddra reglugerða sem innleiða svonefnda tæknistaðla.

Tilkynningar um skortstöður og óvarðar stöður í skuldatryggingum

Samkvæmt reglugerðinni þurfa einstaklingar og lögaðilar að tilkynna um skortstöður í hlutabréfum og ríkisskuldagerningum (e. sovereign debt) til lögbærra yfirvalda um leið og þær fara yfir eða undir tiltekin mörk. Einnig þarf í ákveðnum tilvikum að tilkynna um óvarðar stöður í skuldatryggingum á ríki (e. sovereign CDS).

Nettó skortstöður í hlutabréfum

Tilkynna þarf um skortstöðu í hlutabréfum til lögbærra yfirvalda þegar nettó skortstaða fer yfir eða fellur undir viðmiðunarmörk sem nema 0,2% af útgefnu hlutafé félags (e. issued share capital) sem fengið hefur hlutabréf sín tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga. Til viðbótar því þarf að senda tilkynningu í hvert skipti sem nettó skortstaða eykst um 0,1% umfram fyrrgreind 0,2% mörk. Birta þarf opinberlega tilkynningu ef nettó skortstaða í hlutabréfum fer yfir sem nemur 0,5% af útgefnu hlutafé félags og fyrir hvert 0,1% umfram það. Þá þarf einnig að senda inn tilkynningar eða birta þær opinberlega þegar farið er undir framangreind umframmörk.

Mynd 1: Viðmiðunarmörk vegna tilkynninga um nettó skortstöður í hlutabréfum

Viðmiðunarmörk vegna tilkynninga um nettó skortstöður í hlutabréfum

 

Nettó skortstöður í ríkisskuldagerningum

Senda þarf tilkynningu um skortstöðu í ríkisskuldagerningum til lögbærra yfirvalda þegar nettó skortstaða fer yfir eða fellur undir ákveðin mörk. Þar sem heildarfjárhæð útgefinna skulda viðkomandi ríkis er á bilinu 0-500 milljarðar evra nema mörkin 0,1%. Þar sem heildarfjárhæð útgefinna skulda viðkomandi ríkis er yfir 500 milljarðar evra eða þar sem til staðar er markaður með framtíðarsamninga fyrir útgefna ríkisskuldagerninga viðkomandi ríkis, og sá markaður telst búa yfir seljanleika, eru mörkin 0,5%. Einnig þarf að senda tilkynningar í hvert sinn sem skortstaða eykst um 0,05% umfram 0,1% mörkin og þegar skortstaða eykst um 0,25% umfram 0,5% mörkin.

Mynd 2: Viðmiðunarmörk vegna tilkynninga um nettó skortstöður í ríkisskuldagerningum

Viðmiðunarmörk vegna tilkynninga um nettó skortstöður í ríkisskuldagerningum

Á heimasíðu ESMA er að finna lista yfir tilkynningarmörk hvers ríkis.

Óvarðar stöður í skuldatryggingum ríkja

Samkvæmt reglugerðinni ríkir almennt bann við því að eiga óvarðar stöður í skuldatryggingum á ríki. Undir vissum kringumstæðum geta lögbær yfirvöld þó afnumið slíkt bann og heimilað aðilum að eiga óvarðar stöður. Þegar slík heimild er fyrir hendi ber aðilum að tilkynna um óvarðar stöður sem þeir eiga í skuldatryggingum á ríki í samræmi við þær kröfur sem gilda um tilkynningar ríkisskuldagerninga.

Takmarkanir á óvarinni skortsölu

Skortsala hlutabréfa og ríkisskuldagerninga

Samkvæmt ákvæðum skortsölureglugerðarinnar er lagt almennt bann við óvarinni skortsölu hlutabréfa og ríkisskuldagerninga. Þegar aðili skortselur framangreinda fjármálagerninga skal hann hafa til reiðu, eða vera búinn að grípa til viðeigandi ráðstafana sem tryggja að hann muni hafa til reiðu, fjármálagerningana á umsömdum uppgjörsdegi viðskiptanna. Hægt er að uppfylla þessi skilyrði með þrennum hætti:

  • fá umrædd hlutabréf eða ríkisskuldagerninga að láni, eða gera aðrar ráðstafanir sem hafa sambærileg áhrif,
  • gera samning um að fá umrædd hlutabréf eða ríkisskuldagerninga að láni eða aðra óvefengjanlega aðfararhæfa kröfu samkvæmt samningi eða eignarétti til að fá yfirfært til sín eignarhald á samsvarandi fjölda verðbréfa í sama flokki til að uppgjör sé mögulegt á gjalddaga,
  • koma á fyrirkomulagi með þriðja aðila þar sem hann hefur staðfest að hlutabréfin eða ríkisskuldagerningurinn sé aðgengilegur eða hægt sé að hafa eðlilegar væntingar til þess að uppgjör geti farið fram á gjalddaga.

Framangreindar takmarkanir gilda ekki um skortsölu ríkisskuldagerninga þegar sölunni er ætlað að verja gnóttstöðu í skuldagerningum útgefanda ef verðlagning hans hefur mikla fylgni við verðlagningu viðkomandi ríkisskuldagernings.

Skuldatryggingar á ríki

Aðilum er óheimilt að eiga viðskipti með skuldatryggingar á ríki ef viðskiptin leiða til óvarinnar stöðu í viðkomandi skuldatryggingum. Staða í skuldatryggingum er óvarin þegar skuldatryggingin þjónar ekki þeim tilgangi að verja viðkomandi aðila gegn:

  • hættunni á greiðslufalli útgefanda ríkisskuldagernings sem aðili á gnóttstöðu í,
  • hættunni á neikvæðum virðisbreytingum eigna og skulda viðkomandi aðila sem hafa fylgni við virði ríkisskuldagerningana.

Lögbær yfirvöld hafa samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar heimild til að aflétta kröfum um takmarkanir á aðila til að eiga óvarðar stöður í skuldatryggingum á ríki ef ákveðnar aðstæður eru fyrir hendi sem telja má að hafi neikvæð áhrif á markaði með skuldatryggingar.

Ferli uppgjörskaupa

Reglugerðin gerir kröfu um að miðlægir mótaðilar hafi til staðar ferli um uppgjörskaup (e. buy in procedures) sem gripið er sjálfkrafa til þegar aðili hefur skortselt hlutabréf en hefur ekki afhent þau til uppgjörs fjórum viðskiptadögum eftir umsaminn uppgjörsdag.

Ef af einhverjum ástæðum afhending bréfa getur ekki átt sér stað þarf miðlægi mótaðilinn að greiða kaupanda bréfanna sem nemur virði þeirra á uppgjörsdegi ásamt bótum vegna þess tjóns sem viðkomandi kann að hafa orðið fyrir vegna uppgjörsbrestsins. Seljandi bréfanna ber síðan ábyrgð á og þarf að bæta miðlæga mótaðilanum upp þær fjárhæðir sem hann hefur þurft að reiða af hendi vegna uppgjörsbrestsins.

Undanþágur fyrir viðskiptavaka og aðalmiðlara

Aðilar sem eiga í viðskiptum fyrir eigin reikning sem viðskiptavakar (e. market maker) eða aðalmiðlarar (e. authorized primary dealer) eru undanþegnir ákvæðum reglugerðarinnar um tilkynningar á skortstöðum og bann við óvarinni skortsölu hlutabréfa, ríkisskuldagerninga og viðskiptum með skuldatryggingar sem leiða til óvarinnar stöðu.

Ef viðskiptavaki eða aðalmiðlari á óvarða stöðu í skuldatryggingum á ríki og sú staða fer yfir viðmiðunarmörkin sem sett eru fyrir slíkar stöður þarf að tilkynna um þær í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru um tilkynningar á stöðum í skuldatryggingum á ríki.

Þessar undanþágur taka ekki sjálfkrafa gildi og eru ekki án takmarkana. Þær grundvallast á því að viðkomandi aðili sé skilgreindur sem viðskiptavaki eða aðalmiðlari og þær eru bundnar við ákveðna fjármálagerninga. Vilji aðili nýta sér þessar undanþáguheimildir þarf hann að tilkynna lögbæru yfirvaldi sérstaklega um slíkar fyrirætlanir að lágmarki 30 dögum áður en hann hyggst nýta þær. Ekki er um leyfisveitingu að ræða heldur eingöngu tilkynningu um að viðkomandi aðili ætli sér að nýta undanþáguna. Lögbært yfirvald hefur þrátt fyrir það heimild til að neita viðkomandi aðila um rétt sinn til að nýta sér undanþágurnar telji það hann ekki uppfylla öll tiltekin skilyrði. Einnig getur lögbært yfirvald hvenær sem er stöðvað nýtingu undanþáguheimildanna telji það viðkomandi aðila ekki uppfylla öll þau skilyrði sem kröfur eru gerðar um.

Stöðvun eða takmörkun skortsölu við sérstakar kringumstæður

Þegar uppi eru aðstæður sem geta ógnað fjármálastöðugleika eða tiltrú á markaðnum geta lögbær yfirvöld gripið til aðgerða og stöðvað eða takmarkað skortsölu fjármálagerninga og viðskipti með skuldatryggingar á ríki. Við þessar aðstæður geta lögbær yfirvöld:

  • krafist þess að einstaklingar eða lögaðilar tilkynni sérstaklega um nettó skortstöður sínar í tilteknum fjármálagerningum eða flokki fjármálagerninga til lögbærra yfirvalda eða birti opinberlega um þær upplýsingar ef stöðurnar ná eða fara niður fyrir tiltekin viðmiðunarmörk sem ákveðin eru af lögbæra yfirvaldinu,
  • krafist þess að aðilar sem lána fjármálagerninga eða flokka fjármálagerninga tilkynni sérstaklega til lögbærra yfirvalda ef verulegar breytingar verða á þeim þóknunum sem innheimtar eru vegna slíkra viðskipta,
  • bannað eða sett skilyrði, hvað varðar einstaklinga eða lögaðila, um samning um skortsölu eða sambærileg viðskipti,
  • takmarkað heimildir einstaklinga og lögaðila til að eiga í viðskiptum með skuldatryggingar á ríki eða sett takmörk á virði staða í skuldatryggingum á ríki sem viðkomandi aðilum er heimilt að taka.

Lögbærum yfirvöldum er einnig veitt heimild til að takmarka tímabundið skortsölu á fjármálagerningum ef verð þeirra hefur lækkað verulega. Miðast lækkunin við dagslokaverð síðasta viðskiptadags á undan. Fyrir hlutabréf sem teljast seljanleg (e. liquid shares) skal verðið hafa lækkað að lágmarki um 10%. Ráðstöfunin skal ekki gilda lengur en til loka næsta viðskiptadags á eftir deginum sem verðlækkunin átti sér stað. Lögbær yfirvöld hafa þó heimild til að framlengja bannið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Framlenging bannsins skal þó ekki vara lengur en tvo viðskiptadaga frá lokum annars viðskiptadagsins.

Heimildir ESMA

ESMA hefur samkvæmt ákvæðum skortsölureglugerðarinnar hlutverki að gegna við samræmingu aðgerða milli lögbærra yfirvalda. ESMA skal tryggja að beiting valdheimilda og aðgerða samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar fari fram með sambærilegum hætti milli ríkja, sérstaklega þegar heimildir um inngrip á markaði eru nýttar.

Stofnunin getur einnig gripið til aðgerða og stöðvað eða takmarkað skortsölu eða sambærileg viðskipti við sérstakar aðstæður.

Gagnlegar upplýsingar

Áður en markaðsaðilar hafa samband við Seðlabanka Íslands vegna frekari upplýsinga eru þeir hvattir til að kynna sér þær upplýsingar sem finna má á vefsvæði ESMA .

Allar fyrirspurnir varðandi skortsölureglugerðina skal senda á netfangið skortsala@sedlabanki.is.

Fjórir tæknistaðlar fylgja skortsölureglugerðinni, framkvæmdareglugerð (ESB) nr. 827/2012, og afleiddar reglugerðir (ESB) nr. 826/2012 , 918/2012 og 919/2012. Tæknistaðlarnir varða nánari framkvæmd ákvæða skortsölureglugerðarinnar.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica