Virkur eignarhlutur í fjármálafyrirtæki

Fjármálaeftirlitið metur hvort aðilar séu hæfir til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum, greiðslustofnunum og rafeyrisfyrirtækjum. Ákvæði um virka eignarhluti í fjármálafyrirtækjum koma fram í VI. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Jafnframt vísa 10. mgr. 15. gr. laga nr. 120/2011 um greiðsluþjónustu og 3. mgr. 14. gr. laga nr. 17/2013 um útgáfu og meðferð rafeyris til VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki um mat á virkum eignarhlutum í greiðslustofnunum og rafeyrisfyrirtækjum.

Fjármálaeftirlitið fer með mat á hæfi aðila til að fara með virkan eignarhlut sem og viðvarandi mat til þess að tryggja að aðilar uppfylli hæfisskilyrði á hverjum tíma.

Þeir aðilar er fara með virkan eignarhlut eru ekki eftirlitsskyldir aðilar með sama hætti og þeir sem stunda leyfisskylda starfsemi. Þeir sem hafa heimild til að fara með virkan eignarhlut eru þó háðir ýmsum lagaskilyrðum sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að séu uppfyllt auk þess sem lögin leggja á framangreinda aðila ýmsar skyldur.

Virkur eignarhlutur

Virkur eignarhlutur telst bein eða óbein hlutdeild í félagi sem nemur 10% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti eða önnur hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi félags, sbr. 21. tölul. 1. gr. a fftl.

Mat Fjármálaeftirlitsins á því hvort virkur eignarhlutur hafi myndast grundvallast á aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig.

Óbein hlutdeild aðila nægir til þess að hann verði talinn eigandi virks eignarhlutar í skilningi ákvæðis 21. tölul. 1. gr. a fftl. Þannig er ekki nauðsynlegt að aðili sé sjálfur eigandi hlutafjárins, stofnfjárins eða atkvæðisréttarins, heldur nægir að hann ráði með einhverjum öðrum hætti yfir virka eignarhlutnum. Þannig getur aðili verið talinn fara með virkan eignarhlut á grundvelli óbeinnar hlutdeildar sem myndast t. d. með yfirráðum eins aðila yfir lögaðila sem á virkan eignarhlut í fyrirtæki. Aðili gæti einnig verið talin ráða yfir virka eignarhlutnum með því að eignast ráðandi eignarhlut í móðurfélagi ef samanlagður hlutur þess og dótturfélags í fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki eða greiðslustofnun er yfir þeim mörkum sem ákvarða hvað teljist virkur eignarhlutur.

Í ljósi þess að þau ákvæði laganna sem snúa að virkum eignarhlut í fjármálafyrirtækjum byggja á tilskipun 2013/36/EU hefur Fjármálaeftirlitið við skýringu á því hvenær um samstarf er að ræða litið til viðmiðunarreglna evrópsku eftirlitsstofnananna á fjármálamarkaði frá 2007 og 2016. Þar er tilgreint að samstarf geti meðal annars verið fyrir hendi ef einn eða fleiri hafa gert með sér samkomulag um að einn þeirra eða fleiri saman ráði yfir eða nái virkum eignarhlut í félagi, hvort sem samkomulagið er formlegt eða óformlegt, skriflegt, munnlegt eða með öðrum hætti.

Í 22. tölul. 1. gr. a fftl. er kveðið á um hvað teljist vera yfirráð. Ráða má af ársreikningalögum að það ræður úrslitum um myndun óbeinnar hlutdeildar að lögaðili teljist vera í aðstöðu til að stjórna og taka ákvarðanir fyrir virka eigandann. Dæmi um slík óbein yfirráð er t.d. þegar lögaðili skipar meirihluta stjórnarmanna í virka eigandanum og/eða hefur rétt til að skipa eða víkja frá meirihluta stjórnar í virka eigandanum. Þá gætu óbein yfirráð myndast ef eignarhald í virka eigandanum er mjög dreift með þeim afleiðingum að stærsti einstaki eigandinn stýrir ákvörðunum virka eigandans í raun.

Sá möguleiki er einnig fyrir hendi að samstarf eða tengsl í skilningi 23. og 25. tölul. 1. gr. a fftl. leiði til óbeinna yfirráða. Slík óbein yfirráð gætu t.d. myndast ef tveir eða fleiri lögaðilar sem eiga eignarhlut/atkvæðisrétt í virkum eiganda, eru í samráði um stjórnun hans.

Með hliðsjón af framangreindu getur óbein hlutdeild lögaðila í fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki eða greiðslustofnun meðal annars myndast með:

1) yfirráðum, beinum eða óbeinum í skilningi 5. og 6. tölul. 2. gr. ársreikningalaga, sbr. 22. tölul. 1. gr. a fftl., og hins vegar með því

2) að samanlagður eignarhlutur móður- og dótturfélags sé 10% eða meiri hlutdeild í fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki eða greiðslustofnun, sbr. 21. tölul. 1. gr. a fftl.

Virkur eignarhlutur getur einnig myndast með annarri hlutdeild, en að framan greinir, sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun félags. Dæmi um slíka hlutdeild getur m.a verið þegar aðili fer með eignarhlut undir 10% en situr jafnframt í stjórn viðkomandi félags eða þegar aðili fer með eignarhlut undir 10% en eignarhald annarra hluthafa er mjög dreift.

Tilkynning aðila sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. fftl. skal aðili sem hyggst eignast, einn sér eða í samstarfi við aðra, virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki eða greiðslustofnun tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um áform sín. Hið sama á við hyggist aðili, einn sér eða í samstarfi við aðra, auka svo við eignarhlut sinn að virkur eignarhlutur fari yfir 20%, 33% eða 50% eða nemi svo stórum hluta að fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki eða greiðslustofnun verði talið dótturfyrirtæki hans. Samkvæmt 2. mgr. 40. gr. fftl. geta kaup á virkum eignarhlut ekki komið til framkvæmda fyrr en tímafrestur Fjármálaeftirlitsins samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 43. gr., sbr. 42. gr. fftl. er liðinn eða Fjármálaeftirlitið hefur tilkynnt þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut að hann sé hæfur til að fara með eignarhlutinn.

Í 45. gr. fftl. segir að tilkynni aðili, sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut, ekki Fjármálaeftirlitinu um fyrirhuguð áform sín þrátt fyrir að honum sé það skylt samkvæmt 40. gr. fftl. þá falli niður atkvæðisréttur sem fylgir þeim hlutum sem eru umfram það sem hann átti áður. Fjármálaeftirlitið tilkynnir viðkomandi fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki eða greiðslustofnun um brottfall atkvæðisréttarins fái stofnunin vitneskju um kaupin eða aukninguna. Skal Fjármálaeftirlitið krefjast þess að hlutaðeigandi sendi inn tilkynningu í samræmi við ákvæði 41. gr. fftl. Um málsmeðferð fer að öðru leyti skv. 41.-43. gr. fftl. Aðili öðlast atkvæðisrétt í samræmi við eignarhlut sinn geri Fjármálaeftirlitið ekki athugasemdir við að viðkomandi aðili eignist eða auki við virkan eignarhlut.

Berist tilkynning hlutaðeigandi ekki innan fjögurra vikna frá því að Fjármálaeftirlitið krafðist tilkynningar getur það krafist þess að hann selji þann hluta eignarhlutarins sem er umfram það sem hann átti áður, sbr. 45. gr. Skal Fjármálaeftirlitið setja tímamörk í því skyni og skal fresturinn ekki vera skemmri en tveir mánuðir. Sé hlutur ekki seldur á tilskildum tíma er Fjármálaeftirlitinu heimilt að beita aðila dagsektum samkvæmt lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Upplýsingar í tilkynningu

Í 41. gr. fftl. er kveðið á um hvaða upplýsingar skulu fylgja tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins. Þá er í 2. mgr. 41. gr. fftl. kveðið á um að sé sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut lögaðili skulu framangreindar upplýsingar eiga við um lögaðilann sjálfan, stjórnarmenn hans, framkvæmdastjóra og þá einstaklinga og lögaðila sem eiga virkan eignarhlut í lögaðilanum. Skal þá enn fremur upplýst um endurskoðanda lögaðilans. Skulu upplýsingarnar studdar gögnum eftir því sem það á við.

Skylda til að tilkynna um virkan eignarhlut á jafnt við um þá sem hyggjast eignast virkan eignarhlut með beinni eða óbeinni hlutdeild eða með annarri hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi félags.

Fjármálaeftirlitið hefur gefið út og birt opinberlega sérstaka gátlista, sem finna má í þjónustugátt stofnunarinnar, vegna upplýsingagjafar í tengslum við tilkynningu aðila skv. 41. gr. fftl. Gátlistarnir voru unnir með hliðsjón af leiðbeinandi tilmælum samstarfsnefnda evrópskra eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði (e. Committees of European Financial Supervisors EBA, ESMA og EIOPA um mat á aðilum sem hyggjast eignast eða auka við virkan eignarhlut í aðila á fjármálamarkaði (e. Guidelines for the Prudential Assessment of Acquisitions and Increases in Holdings in the Financial Sector required by Directive 2007/44/EC) og (e. Joint Guidelines on the prudential assessment of acquisitions and increases of qualifying holdings in the financial sector).

Tilkynning aðila sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki eða greiðslustofnun skal innihalda umbeðnar upplýsingar samkvæmt gátlistum er tengjast tilkynningu um virkan eignarhlut. Upplýsingarnar skulu settar fram á skýran og skilmerkilegan hátt ásamt því að vísað sé til viðeigandi töluliða í gátlistunum svo ekki þurfi að koma til frekari upplýsingaöflunar af hálfu Fjármálaeftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið vekur athygli á því að röng eða ófullnægjandi upplýsingagjöf getur varðað við lög.

Náin tengsl

Í tengslum við tilkynningu um fyrirhugaðan virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki eða greiðslustofnun skal ávallt hafa í huga 49. gr. b fftl., en þar segir að ákvæði 40.-49. gr. gildi um náin tengsl eftir því sem við geti átt. Ekki má mynda náin tengsl nema sýnt sé fram á að þau hindri ekki eftirlit með starfsemi félagsins. Skilgreiningu á nánum tengslum er að finna í 23. tölul. 1. gr. a fftl. en náin tengsl teljast vera til staðar þegar einstaklingar og/eða félög tengjast með einhverjum af eftirfarandi hætti:

a) með hlutdeild í formi beins eignarréttar eða yfirráðum sem nemur 20% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðagengi félags,

b) með yfirráðum, eða

c) með varanlegum tengslum þeirra við sama þriðja aðila í gegnum yfirráðatengsl.

Mat á hæfi fyrirhugaðs eiganda

Tilgangur lagaákvæða um mat Fjármálaeftirlitsins á hæfi fyrirhugaðs eiganda virks eignarhlutar er einkum sá að draga úr hættunni á að stórir hluthafar í fjármálafyrirtækjum hafi skaðleg áhrif á heilbrigðan og traustan rekstur fyrirtækjanna og virkni markaðarins. Þannig er reynt að koma í veg fyrir að stórir hluthafar geti beitt áhrifum sem kunna að fylgja eignarhaldi í þeim tilgangi að afla sjálfum sér ávinnings á kostnað fyrirtækisins, annarra hluthafa eða viðskiptamanna fyrirtækisins. Jafnframt kann hegðun og orðspor stórs hluthafa að hafa áhrif á það traust sem fyrirtækið nýtur.

Fram kemur í 2. mgr. 42. gr. fftl. að Fjármálaeftirlitið skuli leggja mat á það hvort sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut sé hæfur til að eiga eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis. Með ákvæðinu er því lögð sú skylda á herðar Fjármálaeftirlitinu að leggja mat á hæfi fyrirhugaðs eiganda á grundvelli þeirra gagna sem hann hefur lagt fram og eftir atvikum þeirra gagna sem stofnunin hefur sjálf aflað.

Mat Fjármálaeftirlitsins skal grundvallast á eftirfarandi atriðum, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um fjármálafyrirtæki:

1. Orðspori þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut.

2. Orðspori og reynslu þess sem mun veita fjármálafyrirtækinu forstöðu komi til hinna fyrirhuguðu kaupa eða aukningar eignarhlutar.

3. Fjárhagslegu heilbrigði (e. financial soundness) þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækinu, einkum með tilliti til þess reksturs sem fjármálafyrirtækið hefur, eða mun hafa, með höndum.

4. Hvort ætla megi að eignarhald þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut muni torvelda eftirlit með hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki eða hafa áhrif á hvort það muni fylgja lögum og reglum sem um starfsemi þess gilda. Við mat á því skal m.a. horft til fyrri samskipta þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut við Fjármálaeftirlitið og/eða önnur stjórnvöld, til þess hvort staða fjármálafyrirtækisins í hópi fyrirtækja sem það mun tilheyra kunni að mati Fjármálaeftirlitsins að hindra það í eðlilegum eftirlitsaðgerðum og hvort lög og reglur, sem gilda um þann sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut, hindri eðlilegt eftirlit.

5. Hvort ætla megi að eignarhald þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut muni leiða til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka, eða geti aukið líkur á að slíkt athæfi verði látið viðgangast innan hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis .

Sömu sjónarmið gilda um mat á hæfi aðila sem hyggst eignast virkan eignarhlut með beinni eða óbeinni hlutdeild eða með annarri hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi félags.

Framangreint ákvæði inniheldur samanlagt alla þá þætti sem Fjármálaeftirlitið þarf að leggja til grundvallar við mat á hæfi fyrirhugaðs virks eiganda. Í ljósi þess að ákvæðið byggir á tilskipunar 2013/36/ESB hefur stofnunin við skýringu þess meðal annars til hliðsjónar viðmiðunarreglur evrópsku eftirlitsstofnananna á fjármálamarkaði frá 2016.

Sömu sjónarmið gilda um mat á hæfi aðila sem hyggst eignast eignast virkan eignarhlut með beinni eða óbeinni hlutdeild eða með annarri hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi félags.

Leiki vafi á því, að mati Fjármálaeftirlitsins, hver sé eða verði raunverulegur eigandi virks eignarhlutar skal það tilkynna þeim sem sendi tilkynningu, samkvæmt 40. gr. fftl. eða fjármálafyrirtækinu, rafeyrisfyrirtækinu eða greiðslustofnuninni sem um ræðir, ef ekki næst til þess sem tilkynnti, að eftirlitið telji viðkomandi ekki hæfan til þess að fara með eignarhlutinn, sbr. 49. gr. a. fftl.

Tímafrestir

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. fftl. skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir móttöku tilkynningar samkvæmt 40. gr. fftl. staðfesta móttöku hennar. Mikilvægt er að allar umbeðnar upplýsingar fylgi með tilkynningu en að öðrum kosti getur Fjármálaeftirlitið ekki staðfest móttöku tilkynningarinnar.

Telji Fjármálaeftirlitið að afla þurfi ítarlegri upplýsinga en þeirra sem upp eru taldar í 1. mgr. 41. gr. fftl. getur það krafist þess. Slík krafa skal sett fram eigi síðar en fimmtíu starfsdögum eftir móttöku tilkynningar. Fjármálaeftirlitið hefur sextíu virka daga til þess að meta hvort það telur þann sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut hæfan til að fara með eignarhlutinn. Sé óskað eftir viðbótarupplýsingum frá viðkomandi bætist bið eftir upplýsingunum við dagafjölda, þó ekki umfram tuttugu virka daga. Ef sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut er staðsettur í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins eða lýtur ekki opinberu fjármálaeftirliti innan Evrópska efnahagssvæðisins bætist við bið eftir upplýsingum við dagafjölda, þó ekki umfram þrjátíu virka daga, sbr. lokamálsliður 1. mgr. 42. gr. fftl .

Hafi Fjármálaeftirlitið óskað eftir upplýsingum skv. 42. gr. og þær ekki borist innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í ákvæðinu eða þær eru ófullnægjandi að mati Fjármálaeftirlitsins getur Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga, sbr. 1. mgr. 43. gr. fftl.

Samkvæmt 2. mgr. 40. gr. fftl. geta kaup á virkum eignarhlut ekki komið til framkvæmda fyrr en tímafrestur Fjármálaeftirlitsins til að taka málið til skoðunar samkvæmt 42. gr. fftl. er liðinn eða niðurstaða Fjármálaeftirlitsins liggur fyrir. Á meðan er þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut óheimilt að taka þátt í ákvörðunum um breytingar á fjárhagslegri stöðu, eignauppbyggingu, rekstri, starfsemi og innri starfsreglum nema að fengnu sérstöku samþykki Fjármálaeftirlitsins. Ákvæði 2. málsl. á þó ekki við um meðferð eignarhlutar sem aðili átti fyrir eða er ekki umfram virkan eignarhlut.

Liggi niðurstaða Fjármálaeftirlitsins á hinn bóginn ekki fyrir innan þess tímafrests sem kveðið er á um í 1. mgr. 42. gr. fftl. skal litið svo á að Fjármálaeftirlitið hafi ekki athugasemdir við fyrirætlanir þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut í hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki eða greiðslustofnun, sbr. 2. mgr. 43. gr. fftl.

Niðurstaða mats á hæfi

Tilkynning til aðila sem telst hæfur

Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut innan tímafrests samkvæmt 1. mgr. 42. fftl. komist stofnunin að þeirri niðurstöðu að viðkomandi sé hæfur til að fara með eignarhlutinn. Jafnframt birtir Fjármálaeftirlitið slíka tilkynningu á vefsíðu stofnunarinnar.

Hafi sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut eigi ráðist í þær fjárfestingar sem hann hafði tilkynnt Fjármálaeftirlitinu innan sex mánaða frá því að niðurstaða þess lá fyrir skal hann tilkynna því að nýju um fyrirhugaða fjárfestingu sína, sbr. 44. gr. fftl. Ákvæði 40.–43. gr. fftl. gilda þá um þá tilkynningu og viðbrögð Fjármálaeftirlitsins við henni.

Tilkynning til aðila sem telst ekki hæfur

Telji Fjármálaeftirlitið þann sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut ekki hæfan til þess að fara með eignarhlutinn skal það tilkynna viðkomandi um það. Fjármálaeftirlitið skal rökstyðja niðurstöðu sína fyrir viðkomandi, sbr. 1. mgr. 43. gr. fftl. Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins skal vera skrifleg og tilkynnt þeim sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir að niðurstaðan lá fyrir.

Eignist aðili eða auki við virkan eignarhlut þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi komist að þeirri niðurstöðu að hann sé ekki hæfur til að eignast eða auka við hlut sinn fellur niður atkvæðisréttur aðila umfram lágmark þess hlutar sem telst virkur eignarhlutur, sbr. 46. gr. fftl. Viðkomandi aðila er skylt að selja þann hluta eignarhlutarins sem er umfram það sem hann átti áður og niðurstaða Fjármálaeftirlitsins tók til. Fjármálaeftirlitið setur tímamörk í því skyni og skal fresturinn ekki vera skemmri en tveir mánuðir. Aðili öðlast fyrri atkvæðisrétt að sölu lokinni.

Tímagjald fyrir afgreiðslu tilkynningar

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. gjaldskrár Fjármálaeftirlitsins nr. 924/2017 skal greiða tímagjald fyrir vinnslu umsóknar um virkan eignarhlut sem nemur 15.000 krónum í samræmi við fjölda vinnustunda sem stofnunin þarf að verja í afgreiðslu tilkynningar um virkan eignarhlut.

Gjaldið skal greitt samkvæmt reikningi sem gefinn er út við lok afgreiðslu, sbr. 2. mgr. 2. gr. gjaldskrárinnar.

Viðvarandi eftirlit

Upplýsingaskylda virks eiganda

Samkvæmt 49. gr. fftl. getur Fjármálaeftirlitið krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða fara með eignarhlut í fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki eða greiðslustofnun í því skyni að meta hvort þeir falli undir tilkynningarskyldu samkvæmt 40. gr. fftl. eða hvort þeir teljist hæfir til að fara með virkan eignarhlut samkvæmt þessum kafla. Fjármálaeftirlitið getur krafist sömu upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem hafa selt eignarhlut eða haft milligöngu um viðskipti með eignarhlut. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.

Teljist einstaklingur eða lögaðili ekki lengur hæfur til að fara með virkan eignarhlut er heimilt að veita hæfilegan frest til úrbóta sé það unnt að mati Fjármálaeftirlitsins. Verði úrbótum ekki komið við eða frestur sem Fjármálaeftirlitið hefur veitt skal Fjármálaeftirlitið grípa til úrræða sem getið er í 46. gr. fftl.

Tilkynning eiganda um aðilaskipti

Hyggist eigandi virks eignarhlutar draga svo úr hlutafjár- eða stofnfjáreign sinni eða atkvæðisrétti að hann eigi ekki virkan eignarhlut eftir það skal hann tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram og einnig hver eignarhlutur hans muni verða, sbr. 47. gr. fftl. Fari eignarhluturinn niður fyrir 20%, 33%, 50% eða svo mikið að fjármálafyrirtækið, rafeyrisfyrirtækið eða greiðslustofnunin hættir að vera dótturfélag hlutaðeigandi skal það einnig tilkynnt. Sama á við ef hlutfallslegur eignarhlutur eða atkvæðisréttur rýrnar vegna hlutafjár- eða stofnfjáraukningar.

Tilkynning fyrirtækis um aðilaskipti

Þegar hlutafjár- eða stofnfjáreign í fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki eða greiðslustofnun fer yfir eða undir þau mörk sem tilgreind eru í 40. gr. fftl. skal stjórn þess tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það án ástæðulauss dráttar, sbr. 48. gr. fftl.

Eigi sjaldnar en einu sinni á ári skulu fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki eða greiðslustofnun skv. 2. mgr. 48. gr. fftl. tilkynna Fjármálaeftirlitinu um þá hluthafa sem eiga virkan eignarhlut í þeim og um hlutafjáreign hvers þeirra. Hið sama á við um eigendur stofnfjár.

Til baka

Language


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica