Starfsleyfi verðbréfafyrirtækja

Til að mega stunda fjárfestingarþjónustu og fjárfestingastarfsemi er sett það skilyrði að fyrirtæki hafi verið veitt starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki, sbr. I. kafli 2. þáttar laga nr. 115/2021, um markaði fyrir fjármálagerninga.

Seðlabanki Íslands veitir fyrirtækjum starfsleyfi sem lánastofnun samkvæmt 5. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga. Kveðið er á um kröfur til stofnunar og starfsemi verðbréfafyrirtækja í I. kafla 2. þáttar laganna og 14. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Í 16. og 67. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga eru tilteknar starfsheimildir verðbréfafyrirtækja og viðbótarþjónusta sem þeim er heimilt að veita.

Seðlabanki Íslands skal birta á vef sínum lista yfir þær upplýsingar sem greina þarf í umsókn um starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki og einnig í umsókn verðbréfafyrirtækis um aukið starfsleyfi, samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga.

Umsækjandi skal leggja fram umsókn í samræmi við þær kröfur sem koma fram í I. viðauka við framselda reglugerð (ESB) 2017/1943, sbr. reglur nr. 982/2023.

Umsóknina skal leggja fram með því að fylla út sniðmátið sem sett er fram í I. viðauka við framkvæmdarreglugerð (ESB) 2017/1945, sbr.  reglur nr. 982/2023. Umsækjandi skal enn fremur veita upplýsingar með því að svara spurningalista í þjónustugátt um stjórnarmenn sína, og breytingar á stjórnarmönnum, í samræmi við II. og III. viðauka reglugerðar (ESB) 2017/1945 . Þeir sem ekki hafa aðgang að þjónustugátt geta sent póst á sedlabanki@sedlabanki.is.

Tengiliður samkvæmt 1. gr. reglugerðar (ESB) 2017/1945 er háttsemiseftirlit Seðlabanka Íslands, sedlabanki@sedlabanki.is, sem hefur umsjón með öllum upplýsingum sem berast frá umsækjendum um starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki.

Hæfismat stjórnarmanna og framkvæmdastjóra verðbréfafyrirtækja

Samhliða afgreiðslu umsóknar um starfsleyfi verðbréfafyrirtækis tekur Seðlabankinn til skoðunar mat á hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra félagsins á grundvelli 10. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, sbr. 52. gr., 52. gr. a og 52. gr. e laga um fjármálafyrirtæki.

Virkur eignarhlutur

Samhliða afgreiðslu umsóknar um starfsleyfi fyrir verðbréfafyrirtæki getur Seðlabankinn þurft að leggja mat á hvort hluthafar þess séu hæfir til að fara með virkan eignarhlut samkvæmt 11.-18. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, sbr. VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki. Nánari upplýsingar um matið.

Skýringar

  • Seðlabanki Íslands er lögbært yfirvald samkvæmt 34. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 115/2021.
  • Tilvísanir til II. bálks tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til 2. þáttar laga nr. 115/2021.
  • Tilvísanir til varfærniskrafna samkvæmt 15. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísanir til 20. gr. laga nr. 115/2021.
  • Tilvísanir til varfærniskrafna samkvæmt tilskipunum 2002/87/EB og 2013/36/ESB skal skilja sem tilvísanir til varfærniskrafna samkvæmt lögum nr. 61/2017, um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum og lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
  • Tilvísun til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka í skilningi 1. gr. tilskipunar 2005/60/EB skal skilja sem tilvísun til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka samkvæmt lögum nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
  • Tilvísun til sex mánaða tímabils sem um getur í 3. mgr. 7. gr. tilskipunar 2014/65/ESB skal skilja sem tilvísun til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 115/2021.
Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica