Veiting innheimtuleyfis

Innheimtulög nr. 95/2008 gilda um innheimtustarfsemi. Með lögunum er Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands (Fjármálaeftirlitinu) falið að fara með veitingu innheimtuleyfis.

Til að mega stunda innheimtu fyrir aðra er sett fram það skilyrði að innheimtuaðila hafi áður verið veitt innheimtuleyfi. Það sama á við um aðila sem kaupir kröfur í þeim tilgangi að innheimta þær sjálfur í atvinnuskyni. Lögmenn, opinberir aðilar, viðskiptabankar, sparisjóðir, aðrar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki geta hins vegar stundað innheimtu án innheimtuleyfis. Lögin taka ekki til innheimtu opinberra aðila á sköttum og gjöldum og löginnheimtu.

Umsókn um innheimtuleyfi skal vera skrifleg, á þar til gerðum umsóknareyðublöðum, ásamt viðeigandi fylgigögnum. Framangreind gögn er hægt að nálgast á þjónustuvef.

Í innheimtulögunum eru ákvæði sem kveða á um samband innheimtuaðila og skuldara, meðal annars að innheimta skuli vera í samræmi við góða innheimtuhætti og að innheimtuaðili skuli senda skuldara innheimtuviðvörun eftir gjalddaga kröfu sem þarf að uppfylla ákveðin skilyrði. Í lögunum er einnig fjallað um samband innheimtuaðila og kröfuhafa, en þau leggja ákveðna upplýsingaskyldu á innheimtuaðila gagnvart kröfuhafa og kveða nánar á um hvernig innheimtuaðili skuli fara með innheimtufé.

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að innheimtustarfsemi leyfisskyldra aðila, opinberra aðila, viðskiptabanka, sparisjóða, annarra lánastofnana og verðbréfafyrirtækja sé í samræmi við innheimtulög, reglur og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra. Á þeim grundvelli hefur Fjármálaeftirlitið sett reglur um framkvæmd eftirlits með innheimtustarfsemi samkvæmt innheimtulögum nr. 95/2008.

Lögin heimila jafnframt ráðherra að ákveða í reglugerð hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar og leggja þá skyldu á innheimtuaðila, sem stundar innheimtu á grundvelli innheimtuleyfis, að hafa í gildi starfsábyrgðartryggingu.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica