Starfsleyfi greiðslustofnana

Þeim einum er heimilt að veita greiðsluþjónustu sem hafa til þess leyfi samkvæmt lögum nr. 120/2011 um greiðsluþjónustu. Skv. 14. tölul. 8. gr. laganna er einungis fjármálafyrirtækjum, rafeyrisfyrirtækjum, póstrekendum, seðlabönkum, stjórnvöldum, peninga- og verðmætasendingarþjónustum og greiðslustofnunum heimilt að veita greiðsluþjónustu.

Með greiðsluþjónustu er átt við þjónustu sem gerir kleift að taka út eða leggja reiðufé inn á greiðslureikning, millifæra fjármuni á og af greiðslureikningi o.fl. Greiðslureikningur er reikningur sem notaður er við framkvæmd greiðslu og þarf hann ekki að vera innlánsreikningur. Þannig getur aðili sem veitir þjónustu sem gerir kleift að miðla fjármunum á milli eins eða fleiri aðila talist veita greiðsluþjónustu. Getur það t.d. átt við um þjónustu eða tæknilausn sem tengir saman lántakendur og lánveitendur, eða svonefndar jafningjalánamiðlanir (e. peer-to-peer lending platform).

Umsókn um leyfi til að starfa sem greiðslustofnun skal vera skrifleg og skulu henni fylgja tilteknar upplýsingar. Fjármálaeftirlitið hefur útbúið yfirlit yfir þær upplýsingar sem stofnunin fer fram á að fylgi umsókn.

Gátlista vegna umsóknar um starfsleyfi sem greiðslustofnun má finna í þjónustugátt.

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með þeim aðilum sem stunda greiðsluþjónustu skv. lögum um greiðsluþjónustu.  Á grundvelli framangreinds hefur Fjármálaeftirlitið sett reglur um tryggilega varðveislu fjármuna sem greiðslustofnun móttekur nr. 88/2020.    

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica