Starfsleyfi fjármálafyrirtækja

Til að mega stunda fjármálastarfsemi er sett það skilyrði að fyrirtæki hafi verið veitt starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki. Um starfsleyfi fjármálafyrirtækja gilda lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki (fftl.). Fjármálaeftirlitið veitir fyrirtækjum starfsleyfi, sbr. 1. mgr. 2. gr. fftl.

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki (fftl.) er kveðið á um hvaða starfsemi telst leyfisskyld samkvæmt lögunum. Kveðið er á um kröfur til stofnunar og starfsemi fjármálafyrirtækja í III. kafla fftl. og IV. kafli laganna tiltekur starfsheimildir eftir tegund fjármálafyrirtækis.

Fjármálaeftirlitið vekur athygli á því að skv. 1. tl. 110. gr. fftl. getur það lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæðum 3. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis.

Hér er að finna yfirlit yfir starfsheimildir.

Umsókn og afgreiðsla starfsleyfis fjármálafyrirtækja

Umsókn

Í 5. gr. fftl. er kveðið á um að umsókn um starfsleyfi skuli vera skrifleg og að henni skuli fylgja tilteknar upplýsingar en ekki er um tæmandi talningu að ræða. Fjármálaeftirlitið hefur útbúið yfirlit yfir þær upplýsingar sem stofnunin fer fram á að fylgi umsókn auk viðeigandi fylgigagna. Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að umsóknin sé skipulögð þannig að hún vísi til viðeigandi töluliða í umræddu yfirliti.

Nýtt starfsleyfi: Gátlista vegna umsóknar um nýtt starfsleyfi fjármálafyrirtækis eða um aukið starfsleyfi má finna í þjónustugátt.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. fftl. skal ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu starfsleyfis tilkynnt umsækjanda skriflega svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna umsækjanda um það þegar umsókn telst fullnægjandi. Gera má ráð fyrir því að afgreiðsla umsóknar um starfsleyfi geti tekið allt að 12 mánuði.

Synjun starfsleyfis

Kveðið er á um í 1. mgr. 7. gr. fftl. að fullnægi umsókn ekki skilyrðum laganna að mati Fjármálaeftirlitsins skuli það synja um starfsleyfi. Þá kemur fram í 2. mgr. sömu greinar að synjun skuli rökstudd og tilkynnt umsækjanda innan þriggja mánaða frá móttöku fullbúinnar umsóknar. Synjun skal þó alltaf hafa borist umsækjanda tólf mánuðum frá móttöku umsóknar. Í þessu sambandi má nefna að Fjármálaeftirlitið þarf að hafa svigrúm til þess að meta þær upplýsingar sem fylgja umsókn og því skulu fullnægjandi upplýsingar hafa borist eigi síðar en 9 mánuðum frá því upphafleg umsókn barst Fjármálaeftirlitinu. Að öðrum kosti tekur Fjármálaeftirlitið umsóknina til skoðunar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Kostnaður vegna starfsleyfis fjármálafyrirtækja

Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi skal greiða fastagjald fyrir afgreiðslu umsókna um starfsleyfi eftirlitsskyldra aðila og eru það eftirfarandi:

  • Vegna viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja og vátryggingafélaga 2.500.000 kr.

  • Vegna verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, rekstrarfélaga verðbréfasjóða, kauphalla, verðbréfamiðstöðva, greiðslustofnana og rafeyrisfyrirtækja 1.000.000 kr.

  • Vegna annarra eftirlitsskyldra aðila 300.000 kr.

Seðlabanki Íslands sendir út greiðsluseðil vegna ofannefndra gjalda við móttöku umsókna.

Fyrir útgáfu leyfisbréfs fyrir fjármálafyrirtæki ber auk þess að greiða til ríkissjóðs tiltekið gjald sem tilgreint er í 11. gr. laga nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs samkvæmt eftirfarandi sundurliðun:

  • Leyfisbréf fyrir viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki og verðbréfafyrirtæki 214.000 kr.
  • Leyfisbréf fyrir rekstrarfélög verðbréfasjóða, vátryggingamiðlanir og innheimtuleyfi 107.000 kr.

  • Leyfisbréf fyrir vátryggingafélög, kauphallir og markaðstorg fjármálagerninga 183.000 kr.

Gjald samkvæmt ofangreindu skal greitt fyrir útgáfu leyfis og ber að senda staðfestingu þess efnis til Fjármálaeftirlitsins.

Í 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er kveðið á um að eftirlitsskyldir aðilar skuli greiða eftirlitsgjald af álagningarstofni í þeim hlutföllum og stærðum sem þar segir. Álagningarstofnar eftirlitsgjalds eru efnahags- og rekstrarliðir samkvæmt ársreikningi viðkomandi aðila fyrir næstliðið ár, þó ekki þeirra er greiða skulu fast gjald.

Virkur eignarhlutur í fjármálafyrirtækjum

Á grundvelli 40. gr. fftl. afgreiðir Fjármálaeftirlitið tilkynningar um virka eignarhluti í fjármálafyrirtækjum. Líkt og fram kemur í yfirliti um upplýsingar sem fylgja skulu umsókn um starfsleyfi skal fylgja tilkynning um virkan eignarhlut ásamt starfsleyfisumsókninni. Tilkynning um virkan eignarhlut verður þó ekki afgreidd fyrr en starfsleyfi fjármálafyrirtækis hefur verið veitt. Tímafrestir samkvæmt 42. gr. fftl. byrja ekki að líða fyrr en þann dag er fjármálafyrirtæki fær starfsleyfi.

Hæfismat stjórnarmanna og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja

Samhliða afgreiðslu umsóknar um starfsleyfi fjármálafyrirtækis tekur Fjármálaeftirlitið til skoðunar mat á hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra félagsins á grundvelli 52. gr. fftl.

Nánari upplýsingar um verklag við hæfismat stjórnarmanna og framkvæmdastjóra má finna hér.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica