Hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda

Fjármálaeftirlitið hefur sett reglur sem hámarka leyfilegt veðsetningarhlutfall nýrra fasteignalána í samræmi við 1. mgr. 25. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016. Samkvæmt reglunum skal veðsetningarhlutfall vera að hámarki 85% af markaðsverði fasteignar. Þegar um er að ræða fjármögnun kaupa á fyrstu fasteign verður heimilt að lána allt að 90% af markaðsverði en samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga um fasteignalán til neytenda skal heimila aukið svigrúm vegna lána til fjármögnunar kaupa á fyrstu fasteign.

Tilgangur reglnanna er að varðveita fjármálastöðugleika og treysta viðnámsþrótt lánveitenda og lántaka gagnvart mögulegum viðsnúningi á fasteignaverði, nú þegar vaxandi spennu gætir á húsnæðismarkaði. Fjármálaeftirlitið stuðlar að mildun áhættu vegna lánveitinga í atvinnuskyni með öðrum hætti, svo sem með viðeigandi eiginfjárkröfum til fjármálafyrirtækja.

Þó svo að í reglunum sé kveðið á um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána hindrar það hvorki né ætti að letja lánveitendur til að beita lægri hámörkum almennt eða í einstökum tilfellum þegar við á.

Álit fjármálastöðugleikaráðs

Fjármálastöðugleikaráð hefur sent Fjármálaeftirlitinu (PDF skjal) álit sitt á reglunum, dagsett 20. júní 2017. Í álitinu tekur fjármálastöðugleikaráð undir tillögur Fjármálaeftirlitsins og áréttar að aðstæður á húsnæðismarkaði gefi tilefni til að huga að viðnámsþrótti bæði lánveitenda og lántaka. Það er álit ráðsins að reglurnar séu til þess fallnar að mæta aðstæðum sem ógnað gætu fjármálastöðugleika eða haft óæskileg áhrif á fjármálakerfið.

Vinnuferli reglusetningarinnar og umsagnir

Drög að reglum þessum voru ekki send í umsagnarferli áður en þau voru lögð fyrir stjórn Fjármálaeftirlitsins líkt og almennt tíðkast. Ástæðan er sú að slíkt umsagnarferli hefði getað leitt til tímabundinnar slökunar á lánaskilyrðum og mögulega haft verðmyndandi áhrif á fasteignamarkaði.

Reglur Fjármálaeftirlitsins um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda verða endurskoðaðar reglulega með hliðsjón af þróun á íbúða- og fasteignalánamarkaði. Fjármálaeftirlitið mun hafa sjónarmið hagsmunaaðila sem fram koma til hliðsjónar við endurskoðun þeirra.

Fjármálaeftirlitið hefur birt (PDF skjal) greinargerð um setningu reglnanna á heimasíðu sinni og (PDF skjal) leiðbeiningar um framkvæmd þeirra.

Tengt efni:

Reglur um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda

(PDF skjal) Greinargerð með reglum um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda

(PDF skjal) Leiðbeiningar um framkvæmd reglna um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda

(PDF skjal) Álit fjármálastöðugleikaráðs

Til bakaLanguage


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica