Fjármálastöðugleikaráð

Fjármálastöðugleikaráð og kerfisáhættunefnd

Fjármálastöðugleikaráð er formlegur samstarfsvettvangur stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Ráðið er vettvangur samráðs, upplýsingaskipta og stefnumótunar vegna fjármálastöðugleika og samhæfir viðbúnað opinberra aðila við fjármálakreppu. Í fjármálastöðugleikaráði sitja fjármála- og efnahagsráðherra, sem er formaður ráðsins, seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Helstu verkefni fjármálastöðugleikaráðs eru eftirfarandi:

  • Að móta opinbera stefnu um fjármálastöðugleika.
  • Að meta efnahagslegt ójafnvægi, áhættu í fjármálakerfinu, óæskilega hvata og aðrar aðstæður sem eru líklegar til að ógna fjármálastöðugleika.
  • Að skilgreina þær aðgerðir, aðrar en beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands í peningamálum, sem eru taldar nauðsynlegar á hverjum tíma til að hafa áhrif á fjármálakerfið í þeim tilgangi að efla og varðveita fjármálastöðugleika.
  • Að staðfesta skilgreiningar á kerfislega mikilvægum eftirlitsskyldum aðilum, innviðum og mörkuðum sem eru þess eðlis að starfsemi þeirra getur haft áhrif á fjármálastöðugleika.

Fyrir utan reglulega fundi kemur ráðið saman sem formlegur samráðsvettvangur stjórnvalda þegar fjármálakreppa telst yfirvofandi eða skollin á eða hætta er á atburðum sem geta valdið umtalsverðum smitáhrifum.

Samkvæmt lögum nr. 66/2014 um fjármálastöðugleikaráð starfar kerfisáhættunefnd fyrir fjármálastöðugleikaráð en hún leggur mat á ástand og horfur í fjármálakerfinu, kerfisáhættu og fjármálastöðugleika. Nefndin hittist að minnsta kosti fjórum sinnum á ári og í henni sitja seðlabankastjóri, sem er formaður, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, aðstoðarseðlabankastjóri, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins og sérfræðingur skipaður af ráðherra.

Áhættumatshópar skipaðir starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands starfa á vegum kerfisáhættunefndar og kynna niðurstöður sínar fyrir nefndinni með reglubundnum hætti. 

Þjóðhagsvarúð

Á skrifstofu forstjóra Fjármálaeftirlitsins starfa fimm sérfræðingar í þjóðhagsvarúð. Þjóðhagsvarúð er eftirlit sem felst í að líta eftir fjármálakerfinu í heild, samspili eininganna sem mynda það og tengslum þess við aðra þætti hagkerfisins. Þjóðhagsvarúðarteymið metur og greinir kerfisáhættu, tekur virkan þátt í samstarfi við Seðlabanka Íslands vegna fjármálastöðugleika og framkvæmir greiningar sem nýtast fjármálastöðugleikaráði í því að rækja hlutverk sitt.

Hlutverk teymisins felst í því að:

  • ​​Greina kerfisáhættu og þróun á fjármálamarkaði og miðla þeim upplýsingum út á við og til annarra starfseininga FME.
  • ​Gera tillögur um breytingar á lögum, teymið mótar reglur og leiðbeiningar er varðar stýringu áhættu á fjármálamarkaði.
Til bakaLanguage


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica