Fundir með endurskoðendum

Í leiðbeinandi tilmælum nr. 4/2015 um samskipti Fjármálaeftirlitsins, nú Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (Fjármálaeftirlitið) og ytri endurskoðenda eftirlitsskyldra aðila sem jafnframt eru einingar tengdar almannahagsmunum kemur fram að við upphaf og lok endurskoðunar hjá félögum sem falla undir tilmælin boði Fjármálaeftirlitið til fastra funda með ytri endurskoðendum viðkomandi félaga. Tilgangur fundanna er að auka flæði upplýsinga á milli annars vegar Fjármálaeftirlitsins og hins vegar ytri endurskoðenda eininga tengdra almannahagsmunum í þeim tilgangi að stuðla að bættu eftirliti og endurskoðun. Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að halda fundi með eftirlitsskyldum aðilum sem jafnframt eru einingar tengdar almannahagsmunum m.a. með tilliti til stærðar, umfangs reksturs og kerfislegs mikilvægis.

Með vísan til framangreinds og greinar 1.1.1 í tilmælunum ráðgerir Fjármálaeftirlitið að funda árlega með ytri endurskoðendum Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og Landsbankans hf. og að jafnaði annað hvert ár með ytri endurskoðendum lífeyrissjóðanna Gildis-lífeyrissjóðs, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs verslunarmanna og vátryggingarfélaganna Sjóvá-Almennra trygginga hf., TM hf. og Vátryggingafélags Íslands hf. Fundað verður með ytri endurskoðendum smærri aðila ef tilefni er til.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica