Tilkynningarskyldir aðilar

Tilkynningarskyldir aðilar, eru aðilar sem stunda starfsemi sem kann að verða misnotuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka. Tilkynningarskyldir aðilar eru taldir upp í 2. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Hlutverk Seðlabanka Íslands er að hafa eftirlit með þessum aðilum og tryggja að þeir fylgi ákvæðum framangreindra laga s.s. að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna til lögbærra yfirvalda um grunsamleg viðskipti.

Listi yfir tilkynningarskylda aðila

Eftirfarandi aðilar eru tilkynningarskyldir:

  • Fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki.
  • Lánveitendur og lánamiðlarar samkvæmt lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda sem ekki falla jafnframt undir n-lið laganna.
  • Líftryggingafélög samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
  • Vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn samkvæmt lögum um miðlun vátrygginga þegar þeir miðla líftryggingum eða öðrum áhættu- og söfnunartengdum líftryggingum.
  • Greiðslustofnanir samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu.
  • Rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum um útgáfu og meðferð rafeyris.
  • Útibú erlendra fyrirtækja sem staðsett eru á Íslandi og falla undir a–e lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 140/2018.
  • Umboðs- og dreifingaraðilar fyrirtækja og samsvarandi erlendra fyrirtækja með starfsemi hér á landi sem falla undir a-e. lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 140/2018.
  • Lífeyrissjóðir samkvæmt skilgreiningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
  • Gjaldeyrisskiptaþjónusta að undanskildum þeim aðilum sem uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:
    • Gjaldeyrisskipti eru hliðarstarfsemi sem tengist með beinum hætti meginstarfsemi aðilans og aðeins veitt viðskiptavinum aðilans.
    • Heildarvelta af gjaldeyrisskiptum nemur minna en 5 milljónum króna á ári.
    • Gjaldeyrisskipti fyrir einstakan viðskiptavin fara ekki yfir 100.000 krónur, hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri.
  • Þjónustuveitendur sýndareigna, rafeyris og gjaldmiðla.

Lánveitendur og lánamiðlarar skv. lögum um neytendalán

Neytendalán eru einstaklingslán sem tekin eru óháð atvinnustarfsemi lántakanda, hjá aðila sem hefur atvinnu af því að veita lán samkvæmt lögum nr. 33/2013. Lánveitandi getur verið einstaklingur, fyrirtæki, opinber aðili eða hópur sem veitir lán í atvinnuskyni. Lánveitendur og lánamiðlarar sem bjóða upp á neytendalán skulu vera skráðir hjá Neytendastofu. Þetta á þó ekki við um þá aðila sem hafa heimild til lánveitinga til neytenda skv. sérlögum eða teljast eftirlitsskyldir aðilar skv. lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Markmið neytendalánalaga er að veita neytendum ákveðna vernd og tryggja margvíslega upplýsingagjöf til lánveitanda áður en lánasamningur er gerður.

Neytendalán geta verið fjölbreytt og má þar til dæmis nefna skuldabréf, yfirdráttarheimildir, bílasamninga, raðgreiðslusamninga eða smálán.

Neytendastofa hefur eftirlit með því að lánveitendur og lánamiðlarar fari að lögum um neytendalán.

Seðlabankinn hefur eftirlit með því að starfsemi framangreindra aðila sé í samræmi við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem og reglugerðir og reglur sem settar eru á grundvelli þeirra laga.

Upplýsingar um skráða lánveitendur hér á landi er að finna á vef Neytendastofu .

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica