Starfsemi án leyfis eða skráningar

Starfsemi án leyfis

Tilteknum tilkynningarskyldum aðilum er skylt að afla starfsleyfis samkvæmt þeim sérlögum sem um starfsemi þeirra gilda. Ef þeirri lagaskyldu er ekki fullnægt, getur Fjármálaeftirlitið ekki haft viðeigandi eftirlit með þessum aðilum. Af því leiðir jafnframt að ekki er mögulegt að hafa eftirlit með því hvort lögum og reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sé framfylgt.

Komist Fjármálaeftirlitið að því að aðili hafi stundað starfsemi án leyfis, getur stofnunin beitt eftirfarandi viðurlögum eða úrræðum:

 1. Fjármálafyrirtæki (viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og rekstrarfélög verðbréfasjóða) - XIV. kafli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki
 2. Líftryggingafélög - XXV. kafli laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi
 3. Vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn samkvæmt lögum um miðlun vátrygginga þegar þeir miðla líftryggingum eða öðrum áhættu- og söfnunartengdum líftryggingum - XIII. kafli laga nr. 32/2005 um miðlun vátrygginga
 4. Greiðslustofnanir - V. kafli laga nr. 120/2011 um greiðsluþjónustu
 5. Rafeyrisfyrirtæki - IV. kafli laga nr. 17/2013 um meðferð og útgáfu rafeyris
 6. Lífeyrissjóðir - 55. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Starfsemi án skráningar

Tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt i-k lið laga nr. 140/2018 eru skráningarskyldir hjá Fjármálaeftirlitinu samkvæmt 35. gr. sömu laga. Um skilyrði skráningarinnar fer eftir 37. gr. laganna. 

Þetta eru eftirfarandi aðilar:

 •  Einstaklingar og lögaðilar sem starfrækja gjaldeyrisskiptastöð [1]
 •  Þjónustuveitendur viðskipta milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla og
 •  Þjónustuveitendur stafrænna veskja

Starfi þessir aðilar án skráningar, telst það brot á framangreindum ákvæðum laganna. Í þeim tilvikum gildir XII. kafli laga nr. 140/2018 um viðurlög.

Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á tilkynningarskylda aðila skv. i–k-lið 1. mgr. 2. gr. geta numið frá 500 þús. kr. til 500 millj. kr. 

Ábending um starfsemi án leyfis eða skráningar

Hægt er að senda inn ábendingu um starfsemi án leyfis eða skráningar:

 • Með því að senda ábendingu með því að fylla inn form og velja "Starfsemi án leyfis/skráningar" í "Tegund" reitnum.
 • Með tölvubréfi á netfangið fme@sedlabanki.is
 • Með bréfpósti á heimilisfangið Kalkofnsveg 1, 101 Reykjavík, sem er merktur "Starfsemi án leyfis/skráningar"

Vakin er athygli á að sá sem sendir ábendingu þarf ekki að gefa upp nafn eða aðrar persónugreinanlegar upplýsingar.

 

[1] Athuga skal að þetta á eingöngu við um gjaldeyrisskiptastöðvar sem falla ekki undir eftirfarandi: Gjaldeyrisskipti eru hliðarstarfsemi sem tengist með beinum hætti meginstarfsemi aðilans og aðeins veitt viðskiptavinum aðilans, heildarvelta af gjaldeyrisskiptum nemur minna en 5 millj. kr. á ári eða gjaldeyrisskipti fyrir einstakan viðskiptavin fara ekki yfir 100 þús. kr., hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri færslum sem virðast tengjast hver annarri.

 

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica