Hvað er peningaþvætti?

Skilgreining

Peningaþvætti er hvers konar viðtaka, meðhöndlun eða tilfæringar ávinnings (hagnaðs eða eigna) sem fenginn er með afbroti, hvort sem brotið er gegn almennum hegningarlögum eða sérrefsilögum.

Nánari skilgreiningu er að finna í 264. gr. almennra hegningarlaga en þar segir að peningaþvætti sé þegar einstaklingur eða lögaðili:

 •  tekur við eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti sem er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum, eða
 • umbreytir slíkum ávinningi, flytur, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu, ráðstöfun eða flutningi ávinningsins, eða
 •  stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíkum refsiverðum brotum.

Hver eru viðurlög við peningaþvætti?

 • Peningaþvætti varðar allt að 6 ára fangelsi sé um ásetning að ræða og allt að 6 mánaða fangelsi sé um gáleysi að ræða., sbr. 1. og 4. mgr. almennra hegningarlaga.
 • Sjálfþvætti varðar allt að 6 ára fangelsi, sbr. 2. mgr. 264. gr. sömu laga.
 • Ef ávinningurinn sem um ræðir er af fíkniefnabroti, getur refsingin orðið allt að 12 ára fangelsi skv. 2. mgr. 264. gr. sömu laga.

Þótt frumbrotið hafi verið framið erlendis, og án tillits til hver var að því valdur, er refsað samkvæmt almennum hegningarlögum fyrir brot á ákvæði 264. gr. sem framið eru innan íslenska ríkisins og leiða af frumbrotinu.

Nánar um peningaþvætti 

Frumbrot sem undanfari peningaþvættis

Peningaþvætti hefst því með því sem nefnt er frumbrot en það geta verið öll brot á almennum hegningarlögum eða öðrum lögum. Þetta geta verið brot eins og:

Fjársvik, fjárdráttur, skattalagabrot, fíkniefnabrot, spillingarbrot, innherjasvik, markaðsmisnotkun, brot á lögum um hlutafélög, vopnalagabrot o.fl.

Þar sem ólöglegt er að nýta sér fjárhagslegan ávinning af slíkum frumbrotum, reyna einstaklingar eða lögaðilar að „þvætta“ ávinninginn og gera hann þannig að löglegum fjármunum á yfirborðinu, innan hins hefðbundna fjármálakerfis. Markmiðið er að gefa honum löglegt yfirbragð. Frumbrotið er þá undanfari þeirrar ólögmætu háttsemi sem nefnd er peningaþvætti og er sjálfstætt, refsivert brot samkvæmt almennum hegningarlögum.

Peningaþvætti er í einhverjum tilvikum sjálfþvætti, þ.e. þegar sami aðili fremur frumbrot og þvættar sjálfur ólöglegan ávinning af því.

Ágóði af lögbroti er oft í reiðufé. Það getur vakið grunsemdir að greiða með mjög háum fjárhæðum í reiðufé. Til að komast hjá rannsókn eða tilkynningu til lögreglu, reynir viðkomandi að finna leiðir til að láta líta út fyrir að aflað hafi verið fjármunanna með heiðarlegum hætti. Hann gæti t.d. stofnað rekstur í atvinnugrein sem almennt er viðurkennt að skili miklum tekjum í reiðufé, fært hina illa fengnu fjármuni inn í reksturinn og greitt sér laun eða arð af þeim. Þá fær hann reiðufénu breytt í laun eða arð sem hann getur lagt inn á bankareikning og tekið þaðan út og notað án grunsemda.

Ágóði af lögbroti getur þó verið á öðru formi en reiðufé. Til dæmis er það peningaþvætti að geyma, millifæra eða nýta sér ávinning af skattaundanskoti, markaðsmisnotkun eða innherjasvikum svo dæmi séu nefnd. Ávinningurinn liggur þá inni á reikningum og er því ekki sýnilegur á sama hátt og reiðufé.

Peningaþvætti fer oftast fram í gegnum ákveðið ferli eða eitthvert af eftirfarandi

1. Endurröðun

Þetta er upphafið að því ferli að koma ágóða af refsiverðu broti inn í fjármálakerfið og leysir aðila undan því að geyma háar fjárhæðir í reiðufé. Endurröðun fjármuna getur verið með ýmsum hætti:

Aðili setur ágóða af afbroti, sem er há fjárhæð í reiðufé, og brýtur upp í færri smáar fjárhæðir til að komast hjá eftirliti. Hann leggur t.d. féð inn á marga mismunandi reikninga, jafnvel í mörgum bönkum eða smám saman á sama reikning. Hann gæti einnig keypt ýmsa fjármálagerninga með ágóðanum, sem hann safnar svo saman og leggur inn á reikning á öðrum stað.

Aðrar leiðir:

 • Greiðsla láns eða greiðslukorta með ólögmætum ágóða
 • Kaup á spilapeningum eða fé er lagt undir í veðmálum
 • Flutningur gjaldeyris í reiðufé á milli ríkja
 • Kaup á gjaldeyri með ólögmætum ágóða í gegnum erlend gjaldeyrisskipti
 • Notkun á lögmætri starfsemi til að blanda reiðufé inn í reksturinn s.s. með lögmætum hagnaði í daglegum rekstri

2. Aðgreiningu, fjarlægð

Eftir endurröðun reynir aðili að taka í sundur ágóða af afbroti, myndar fjarlægð á milli sín og ágóðans í gegnum ýmsar leiðir. Markmið hans er að hylja slóð hinna ólöglega fengnu fjármuna og öðlast nafnleysi. Þetta er flóknasta skrefið í ferli peningaþvættis og felur oft í sér millifærslu fjármuna á milli ríkja.

Aðili á þessu stigi hefur t.d. að millifæra fjármunina á milli eins ríkis til annars og skipta þeim upp í hentugar fjárfestingar. Örar hreyfingar fjármunanna eru algengar til þess að komast undan eftirliti auk þess sem aðilar nýta sér eyður eða ósamræmi í lögum og tafir í samstarfi á milli löggæslu- eða dómgæslustofnana á milli ríkja.

3. Aðlögun

Lokastig peningaþvættis er aðlögun þar sem markmiðið er að koma hinum ólögmæta ágóða aftur í hendur aðilans. Það eru ýmsar leiðir farnar til þess að setja fjármunina inn í eign og þaðan til aðilans. Aðalmarkmiðið hér er ávallt að koma fjármunum til aðilans án þess að það veki grunsemdir og þannig að þeir virðist vera með lögmætan uppruna.

Aðili setur t.d. ágóða af afbroti inn í eign. Hann gerir það t.d. með því kaupa skartgrip, fasteign eða bifreið með reiðufé. Hann gæti líka sett féð í sjóð, átt í fjárfestingum eða áhættuviðskiptum með sjóðsfénu sem virkar lögmætt á yfirborðinu.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica