Hvað er fjármögnun hryðjuverka?

Lög nr. 140/2018 taka ekki einungis til peningaþvættis heldur einnig til fjármögnunar hryðjuverka. Samkvæmt lögunum er með hugtakinu átt við þá háttsemi að:

  • Afla fjár í þeim tilgangi eða með vitneskju um að nota eigi féð til að fremja brot sem er refsivert samkvæmt ákvæðum 100. gr. a.-c. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (þ.e. fremja hryðjuverk, styðja þann sem fremur slík verk eða hvetja til þeirra).

Hryðjuverkamaður eða hópur slíkra aðila hafa það markmið að hvetja til, styðja eða framkvæma hryðjuverk og gera það í mörgum tilvikum með fjármögnun.

Fjármögnunin fer oftast fram með þrenns konar hætti:

1. Fjármunum sem koma frá ríki eða fjársterkum aðila

Hópur hryðjuverkamanna eða hryðjuverkastarfsemi í einu ríki sætir pólitískri andspyrnu eða samfélagslegum uppþotum og hlýtur því styrk frá öðru ríki eða fjársterkum aðila.

2. Fjármunum sem eru þvættaður ágóði af afbrotum

Skipulagðir hópar glæpastarfsemi í ríkinu leggja fé til styrktar hryðjuverkastarfsemi sem er illa fengið, í sínu heimaríki eða til aðliggjandi ríkja. Oftast er um að ræða ágóða af fíkniefnasölu, smygli, vændi, fjárhættuspilum eða mannránum.

3. Fjármunum sem eru löglegir s.s. frá góðgerðarsamtökum eða söfnunarstarfsemi

Hópar hryðjuverkamanna fá fé í gegnum söfnun eða góðgerðarstarfsemi (gjafir eða aðildargjöld) frá aðilum af sama menningar- og trúarbakgrunni frá samtökum frá ýmsum samfélögum og ríkjum.

Dæmi 1

Tveir erlendir ríkisborgarar búsettir í Evrópu fara ítrekað til sama greiðsluþjónustuaðila til að senda peninga til nokkurra aðila í annarri heimsálfu. Þeir senda peningana ávallt á mismunandi heimilisföng og nota mismunandi undirskriftir við peningasendingarnar. Í ljós kemur að einstaklingarnir eru þekktir undir mismunandi nöfnum og sæta ásamt móttakendum fjárins rannsókn vegna aðildar að hryðjuverkasamtökum og tiltekinnar hryðjuverkaárásar.

Dæmi 2

Einstaklingur í Evrópu biður annan einstakling um að greiða tiltekna fjárhæð af bankareikningi sínum til góðgerðarsamtaka í öðru Evrópulandi. Tilmælin sem fylgja millifærslunni vísa til fjárstuðnings við ákveðinn einstakling . Síðar kemur í ljós að „góðgerðarsamtökin“ eru tengd við ákveðna hópa tengdum hryðjuverkum. Þá er nafn einstaklingsins, sem átti að vera þiggjandi greiðslnanna, á lista yfir einstaklinga og samtök sem eru grunuð um tengsl við hryðjuverk.

Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða og taka upp áhættumiðað eftirlit vegna hættu á fjármögnun hryðjuverka. Aðferðir við eftirlitið eru þær sömu og þegar um er að ræða peningaþvætti en er þó í mörgum tilvikum beitt með ólíkum hætti.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica