Starfsleyfi vegna greiðsluvirkjunar og skráning vegna reikningsupplýsingaþjónustu
PSD2 tilskipunin, tilskipun (ESB) 2015/2366, er önnur tilskipun Evrópusambandsins um greiðsluþjónustu. Eldri tilskipunin var innleidd hér á landi með setningu laga nr. 120/2011 um greiðsluþjónustu, en lögin fjalla um þær kröfur sem gerðar eru til starfsemi greiðslustofnana og réttindi og skyldur greiðsluþjónustuveitenda, þ.m.t. upplýsingagjöf greiðsluþjónustuveitenda til neytenda. PSD 2 byggir á grunni eldri tilskipunar en nær til starfsemi nýrra aðila sem tengjast greiðsluþjónustu. Ný lög um greiðsluþjónustu hafa verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og frumvarp hefur verið lagt fram.
Um er að ræða annars vegar svonefnda reikningsupplýsingaþjónustuveitendur (e. Account information service providers - AISP) og hins vegar svokallaða þjónustuveitendur vegna greiðsluvirkjunar eða greiðsluvirkjendur (e. Payment initiation service providers – PISP). Þessi breyting tengist þróun á tæknilausnum í greiðslumiðlun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, svo sem snjallsímagreiðslum. Starfsemi þeirra verður gerð starfsleyfisskyld og skráningarskyld, auk þess sem umræddum aðilum verður gert skylt að hafa starfsábyrgðartryggingu. Í lögum um greiðsluþjónustu eru tilgreindar þær upplýsingar sem þarf að veita og kröfur sem viðkomandi aðilar þurfa að uppfylla. Frekari upplýsingar eru aðgengilegar hér:
- Gátlista Seðlabankans fyrir upplýsingagjöf vegna umsóknar um starfsleyfi sem greiðslustofnun má finna hér.
- Frekari upplýsingar um veitingu starfsleyfis og skráningu er að finna í viðmiðunarreglum EBA. Viðbótarupplýsingar um viðmiðunarreglurnar má nálgast á vef EBA..
- Frekari upplýsingar um starfsábyrgðartryggingu greiðsluvirkjenda og reikningsupplýsingaþjónustuveitenda er að finna í viðmiðunarreglum EBA. Viðbótarupplýsingar um viðmiðunarreglurnar má nálgast á vef EBA..
Frekari upplýsingar um þjónustu á grundvelli greiðslumiðla með takmörkuð afnot, sem fellur utan gildissvið laga um greiðsluþjónustu nr. 114/2021, er að finna í viðmiðunarreglum EBA.