Fréttir


Fjármálaeftirlitið fjallar um stöðu lífeyrissjóðanna 2014

16.7.2015

Fjármálaeftirlitið hefur birt heildarniðurstöður ársreikninga íslenskra lífeyrissjóða fyrir árið 2014. Talnaefnið er unnið upp úr þeim gögnum sem Fjármálaeftirlitinu hafa borist frá lífeyrissjóðum og vörsluaðilum.

Lífeyriskerfið er öflugt og heldur áfram að stækka. Á liðnu ári voru starfandi 27 lífeyrissjóðir í 80 deildum samtryggingar og séreignar. Aðrir vörsluaðilar séreignasparnaðar voru sjö talsins. Tryggingafræðileg staða sjóðanna hefur farið batnandi og er heildarstaða sjóða án ábyrgðar launagreiðenda í jafnvægi, þó að margir sjóðir séu ennþá með halla. Tryggingafræðileg staða sjóða með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga er áfram áhyggjuefni.

Vegna vaxandi mikilvægis lífeyrissjóða við öflun lífeyristekna mun þurfa að bregðast við þeirri stöðu eins og gert hefur verið í mörgum af okkar nágrannalöndum. Gjaldeyrishöft takmarka enn fjárfestingamöguleika lífeyrissjóðanna og möguleika þeirra til áhættudreifingar.

Lífeyrismarkaður

Eignir alls lífeyriskerfisins voru í árslok 2014 um 3.086 milljarðar kr. eða 155% af vergri landsframleiðslu. Eignir samtryggingadeilda lífeyrissjóða voru 2.644 milljarðar kr. sem eru um 86% af lífeyrismarkaðnum og að auki nam séreignasparnaður í vörslu þeirra um 281 milljarði kr. Séreignasparnaður í vörslu annarra en lífeyrissjóða nam 161 milljarði kr. í árslok 2014.

Fimm stærstu lífeyrissjóðirnir eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi lífeyrissjóður, Stapi lífeyrissjóður og Almenni lífeyrissjóðurinn. Hrein eign þeirra nam 1.729 milljörðum kr. í árslok 2014 sem eru um 56% af lífeyrismarkaðnum.

Verðbréfaeign með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga stóð í stað á liðnu ári eftir stöðuga aukningu frá árinu 2008. Hlutfallið hefur lækkað en er samt hátt í alþjóðlegum samanburði eða tæplega 41%. Stærstur hluti þessara eigna eru skuldabréf útgefin af Íbúðalánasjóði.

Hrein raunávöxtun samtryggingadeilda lífeyrissjóðanna á liðnu ári var 7,5%. Árleg meðal raunávöxtun sl. 20 ára var 4,0% sem er yfir 3,5% ávöxtunarviðmiði lífeyrissjóðanna. Árleg raunávöxtun sl. 10 og 5 ára var annars vegar 2,6% og hins vegar 5,1%. Hrein raunávöxtun séreignadeilda þeirra var 5,2% á árinu 2014.

Tryggingafræðileg staða

Tryggingafræðileg staða sjóða með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga er sem fyrr mjög slæm og nam hallinn nærri 623 milljörðum kr. í árslok 2014 samanborið við 595 milljarða kr. halla árið 2013. Heildar tryggingafræðileg staða sjóða sem ekki njóta ábyrgðar launagreiðenda heldur áfram að batna og er í jafnvægi, þó að margir sjóðir séu ennþá með halla.

Hér eru heildarniðurstöður ársreikninga lífeyrissjóða 2014 ásamt kennitölum og öðrum upplýsingum. Á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins er einnig talnaefni úr skýrslunum.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica