Fréttir


Deloitte og Fjármálaeftirlitið gera samning um fræðslu og þjálfun

1.2.2016

Hinn 25. janúar sl. undirrituðu Deloitte og Fjármálaeftirlitið samning til eins árs um að Deloitte veiti Fjármálaeftirlitinu fræðslu og þjálfun auk sérfræðiþjónustu, við að innleiða aðferðafræði, ferla og eftirlitsaðgerðir í tengslum við virðisrýrnun útlána á grundvelli staðalsins IFRS 9.

IFRS 9 er nýr alþjóðlegur reikningsskilastaðall sem gefinn var út í júní 2014 og ber bönkum að innleiða hann fyrir árið 2018. Samkvæmt staðlinum skal reikna virðisrýrnun útlána út frá tveimur viðmiðum, þ.e. væntingum um framtíðartapsatburði (e. expected losses) auk áfallinna tapsatburða, í stað þess að færa virðisrýrnun eingöngu þegar útlánstap er áfallið (e. incurred loss), þ.e. þegar tapsatburður hefur orðið eins og gert er samkvæmt gildandi reikningsskilastaðli IAS 39.

Þar sem IFRS 9 byggir mikið á mati stjórnenda banka á þróun vanefndalíkinda og mati á tapi/virðisrýrnun útlána, ef til vanefnda kemur, verður hlutverk fjármálaeftirlita mikilvægara með tilkomu staðalsins en áður við að tryggja samræmda framkvæmd matsins í reikningsskilum banka. Auka þarf m.a. áherslu á eftirlit með mati banka á útlánagæðum, athuganir á útlánum og áhættustýringaferlum sem tengjast útlánaákvörðunum, eftirlit með lánshæfi, vanskilalíkindum og mati á óvissuþáttum.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica