Fréttir


Breytingar á neytendasímaþjónustu Fjármálaeftirlitsins

15.3.2016

Fjármálaeftirlitið veitir leiðbeiningar skv. 7. gr. stjórnsýslulaga og hefur í því skyni um árabil starfrækt neytendasímaþjónustu tvisvar í viku þar sem neytendur geta aflað upplýsinga um hvert þeir geti  leitað vegna ágreinings við eftirlitsskylda aðila, s.s. lánastofnanir og vátryggingafélög.

Nú hefur fyrirkomulagi neytendasímaþjónustu Fjármálaeftirlitsins verið breytt með því að endurvinna upplýsingaefni til neytenda á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins og setja það fram á aðgengilegri hátt en áður. Þar er nú að finna ítarlegar og skýrar upplýsingar um það ferli sem neytendur geta farið eftir til þess að fá úrlausn mála sinna. Í breytingunum fellst einnig að ekki er lengur neinn ákveðinn auglýstur símatími neytendasímaþjónustunnar. Neytendur geta þó hringt í Fjármálaeftirlitið ef leiðbeiningar á heimasíðu um úrlausnarferli eru þeim óljósar. Eftir sem áður mun Fjármálaeftirlitið þó ekki skera úr ágreiningsmálum eða svara lögfræðilegum spurningum um heimildir einstakra eftirlitsskyldra aðila í tilteknum tilvikum.

Hlutverk Fjármálaeftirlitsins er að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða skilmála sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Áfram verður unnt að senda fyrirspurnir og ábendingar um viðskiptahætti eftirlitsskyldra aðila í gegnum heimasíðu Fjármálaeftirlitsins, www.fme.is.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica