Fréttir


Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins vegna Sparisjóðs Vestmannaeyja

29.3.2015

Á grundvelli heimildar í VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki hefur stjórn Fjármálaeftirlitsins á fundi sínum í dag tekið ákvörðun sem felur í sér samruna án skuldaskila þannig að Sparisjóður Vestmannaeyja ses. er sameinaður Landsbankanum hf. með yfirtöku eigna og skulda og sparisjóðnum slitið.

Með fyrrnefndu ákvæði eru Fjármálaeftirlitinu meðal annars fengnar heimildir til að grípa til sérstakra ráðstafana, vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði.

Síðustu daga hafa innstæðueigendur í sparisjóðnum í auknum mæli tekið út reiðufé eða fært innlán sín til annarra innlánsstofnana. Þannig hefur hreint útflæði innstæðna sjóðsins rýrt laust fé hans um helming. Hefur sjóðnum ekki tekist að tryggja aðgang að nægu lausu fé til að mæta áframhaldandi útflæði í sama mæli. Þá liggur fyrir, samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2014, að eiginfjárhlutfall sjóðsins er neikvætt um 1,1%.

Fjármálaeftirlitið telur að með þessari ákvörðun hafi verið komið í veg fyrir frekara tjón fyrir viðskiptavini sjóðsins, stofnfjáreigendur og skattgreiðendur.

Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins vegna Sparisjóðs Vestmannaeyja ses. má sjá hér.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica