Fréttir


Áhætta tengd fjárfestingum í svonefndum jafningjalánum

5.10.2016

Að gefnu tilefni vill Fjármálaeftirlitið koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum vegna svonefndra jafningjalána (e. peer-to-peer lending), sem einnig eru nefnd hóplán (e. lending-based crowdfunding).

Með jafningjalánum er almennt átt við lán til einstaklinga, og eftir atvikum lögaðila, sem almenningi stendur til boða að taka þátt í að fjármagna fyrir milligöngu svonefndra jafningjalánamiðlana (e. peer-to-peer lending platform), oft í gegnum vefsíðu, með loforði um endurgreiðslu og ákveðna ávöxtun.  

Neytendum sem hafa áhuga á að fjárfesta og taka þannig þátt í að fjármagna jafningjalán er bent á að kynna sér fyrir fram upplýsingar um áhættuna sem slíkum fjárfestingum fylgir og hafa eftirfarandi í huga:

  1. Áhættan sem slíkum fjárfestingum fylgir er meiri en þegar fjármunir eru lagðir inn á innlánsreikning í viðskiptabanka og sparisjóði.
  2. Slíkar fjárfestingar njóta ekki lágmarksverndar í samræmi við lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
  3. Almennt eru slíkar fjárfestingar ekki innleysanlegar að hluta eða öllu leyti með skömmum fyrirvara.
  4. Veiting jafningjalána og starfsemi jafningjalánamiðlana er almennt ekki leyfisskyld og lýtur því ekki eftirliti Fjármálaeftirlitsins nema starfsemin feli jafnframt í sér eftirlitsskylda starfsemi samkvæmt lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, svo sem greiðsluþjónustu, sbr. lög nr. 120/2011 um greiðsluþjónustu, sjá einnig hér.
  5. Neytendur ættu einungis að nota fjármuni í slíkar fjárfestingar sem þeir eru reiðubúnir að tapa.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica