Almennar upplýsingar um tegundir vátrygginga

Viðbótartryggingarvernd / séreignasparnaður

Samningar um viðbótartryggingarvernd, oft nefnt séreignasparnaður, eru samningar um tryggingavernd, sem er umfram þá lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóður veitir vegna skylduaðildar að lífeyriskerfinu.

Þegar slíkur samningur er gerður við erlent vátryggingafélag eða vörsluaðila séreignasparnaðar er hann í innlendum gjaldeyri og eru iðgjöld að jafnaði innheimt af innlendum félögum með söluumboð vegna afurðanna hér á landi. Gjaldeyrisviðskipti, þ.e. þegar innlendum gjaldeyri er skipt í erlendan gjaldeyri til þess að greiða iðgjald, eru framkvæmd með tvennum hætti. Annars vegar þannig að erlenda vátryggingafélagið framkvæmir þau eftir að hafa fengið greiðslu frá umboðsaðila í innlendum gjaldeyri. Hins vegar með því að umboðsaðilinn sjálfur framkvæmir gjaldeyrisviðskiptin og greiðir svo erlendan gjaldeyri inn á reikning erlenda vátryggingafélagsins hjá fjármálafyrirtæki hér á landi.

Sparnaður

Mörg erlend vátryggingafélög hafa boðið upp á sparnaðarleiðir sem fela í sér uppsöfnun á höfuðstól erlendis. Um er að ræða samninga í erlendum gjaldeyri þar sem innlendir einstaklingar skuldbinda sig til að greiða iðgjöld í erlendum gjaldeyri. Greidd iðgjöld eru svo nýtt til kaupa á einingum í sjóðum erlendis. Í flestum tilvikum fara greiðslur iðgjalda þannig fram að greiðslukort einstaklinga eru gjaldfærð í hverjum mánuði í erlendri mynt en sparnaður er ávallt laus til innlausnar.

Söfnunartryggingar

Samningar um söfnunartryggingar sem erlend vátryggingafélög bjóða hérlendis eru afurð þar sem hefðbundnum slysa-, líf- og sjúkdómatryggingum er blandað saman við sparnað. Í þeim felst að hluta iðgjalda er varið til kaupa á hefðbundnum tryggingum og að hluta í sparnað með öflun fjárhagslegra réttinda. Rétthafi á því kröfu um uppsafnaðan sparnað í samræmi við stöðu eignarréttinda hans að ákveðnum tíma liðnum, enda hafi svokallað innlausnarvirði myndast af samningnum. Að þessu leyti er söfnunarhlutinn sambærilegur sparnaði á innlánsreikningi í banka. Samningar um söfnunartryggingar eru gerðir í erlendum gjaldeyri og skuldbinda einstaklingar sig til að greiða iðgjöld í erlendri mynt.

Eingreiðslulíftryggingar

Eingreiðslulíftryggingar samkvæmt þeim samningum sem um ræðir eru söfnunarafurð þar sem hluti greiðslu, sem gerð er i erlendum gjaldeyri, er notaður til sjóðssöfnunar en hluti til kaupa á líftryggingu. Einstaklingurinn getur fengið andvirði samningsins greitt út þegar hann vill ganga að sparnaði sínum en við andlát hans er andvirði tryggingarfjárhæðar líftryggingarhluta samningsins greidd út til þess aðila sem einstaklingurinn tilgreinir í samningi. Iðgjaldagreiðslu samkvæmt samningi um eingreiðslulíftryggingu er varið til kaupa á einingum í fyrirfram ákveðnum sjóðum fjárfestis eftir að samningskostnaðurinn hefur verið dreginn frá. Þá eru í einhverjum tilvikum dregin frá áhættuiðgjöld vegna líftryggingar auk rekstrarkostnaður þess sjóðs sem einingar eru keyptar í.

Samningar um eingreiðslulíftryggingar eru gerðir í erlendum gjaldeyri og skuldbinda einstaklingar sig til að greiða iðgjaldið í erlendri mynt. 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica